Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), næst stærsti lífeyrissjóður landsins, hefur kallað eftir því að tilnefningarnefndir skráðra félaga veiti betri upplýsingar um frambjóðendur sem nefndirnar tilnefna ekki í stjórnir umræddra félaga.

Þetta kemur fram í bréfi sem sjóðurinn sendi um miðjan desembermánuð til skráðra íslenskra félaga sem sjóðurinn er hluthafi í og tilnefninganefndar þeirra. LIVE birti bréfið á heimasíðu sinni í morgun.

LIVE segist hafa átt fjölda funda með tilnefningarnefndum og forsvarsmönnum skráðra félaga undanfarin ár þar sem fyrirkomulag varðandi stjórnarkjör og mat á frambjóðendum hefur verið til umræðu. Meðal þess sem rætt hafi verið er með hvaða hætti unnt sé að auka enn gagnsæi við mat á mati á framboðum til stjórna og tryggja sem best virkni hluthafa við stjórnarkjör.

„Eitt af því sem komið hefur ítrekað til tals er það fyrirkomulag sem sýnist vera orðin meginreglan að þeir frambjóðendur sem gefa kost á sér, en eru ekki inn í tillögu tilnefningarnefndar varðandi skipan stjórnar, dragi framboð sitt til baka áður en það er gert opinbert,“ segir í bréfinu.

„Með því þrengist möguleiki hluthafa á að meta kosti tillagna tilnefninganefnda að skipan stjórna sem og að hafa sjálfstæða skoðun á því hvort aðrir frambjóðendur kunni að henta hagsmunum félagsins betur.“

Sjóðurinn bendir á að frambjóðendur sem eru ekki hluti af uppstillingu tilnefninganefnda kjósi gjarnan að draga framboð sitt til baka. Þar kunni hins vegar ýmsar ástæður að liggja að baki.

Með bréfinu segist LIVE vilja hvetja tilnefningarnefndir til að taka þetta verklag til endurskoðunar með það að markmiði að auka gegnsæi og veita hluthöfum betri upplýsingar um aðra hæfa frambjóðendur en þá sem eru hluti af tillögum tilnefninganefnda.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), kallaði einnig eftir því fyrir tæpu ári að tilnefningarnefndirnar skili hluthöfum rökstuddum opnum umsögnum um alla þá frambjóðendur sem tilnefningarnefndin telur hæfa, ekki bara um þá frambjóðendur sem nefndirnar tilnefna í stjórnir umræddra félaga líkt og almennt tíðkast.