Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tapaði 329 milljónum króna á fyrri árshelmingi, samanborið við 480 milljónir króna tap á sama tímabili í fyrra.
„Fyrirtækið, sem er alfarið í íslenskri eigu Orkuveitunnar, er að rétta reksturinn af eftir mikið fjárfestingaskeið sem skilað hefur tugþúsundum heimila og þúsundum fyrirtækja bestu fáanlegu nettengingum,“ segir í uppgjörstilkynningu Ljósleiðarans.
Tekjur Ljósleiðarans jukust um 6,8% á milli ára og námu 2.958 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrargjöld drógust saman frá fyrra ári um 1,4%.
EBITDA-framlegð félagsins jókst um 13,8% milli ára og nam 1.706 milljónum króna á fyrri hluta ársins.
Eignir Ljósleiðarans námu 40,9 milljörðum króna í lok júní síðastliðnum og eigið fé var um 14,2 milljarðar. Vaxtaberandi langtímaskuldir félagsins námu 20,5 milljörðum í lok júní, samanborið við 17,9 milljarða í árslok 2024.
Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir niðurstöðuna viðunandi og í takti við áætlanir.
„Við höfum verið að skipta um gír í rekstrinum og með okkar frábæra starfsfólki og stjórnendum hefur tekist í sameiningu að draga úr rekstrarkostnaði á sama tíma og tekjur hafa aukist og þjónustan verið afar traust.
Fjárfestingar Ljósleiðarans hafa aukið lífsgæði fólks og samkeppnishæfni fyrirtækja hér á landi. Í okkar starfsemi er ör þróun eins og öllu því sem tengist netinu og gagnaflutningum. Þar hefur Ljósleiðarinn ekki látið sitt eftir liggja. Markmiðið er að fólk geti verið áhyggjulaust yfir gæðum sinnar tengingar. Hún sé nægilega hröð en kosti ekki óþarflega mikið.“