Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tapaði 480 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 248 milljóna tap á sama tímabili í fyrra. Í uppgjörstilkynningu félagsins er tapreksturinn helst rakinn til þungs fjármagnskostnaðar.

Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tapaði 480 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 248 milljóna tap á sama tímabili í fyrra. Í uppgjörstilkynningu félagsins er tapreksturinn helst rakinn til þungs fjármagnskostnaðar.

Tekjur Ljósleiðarans á fyrri árshelmingi námu 2.770 milljónum króna sem samsvarar 37,2% aukningu frá sama tímabili í fyrra. Aukning skýrist einkum af þriggja milljarða króna kaupum félagsins á stofnneti Sýnar sem var afhent í október síðastliðnum.

Rekstrargjöld Ljósleiðarans jukust um 112% milli ára og námu 1.270 milljónum króna, samanborið við 598 milljónir á fyrri árshelmingi 2023.

„Unnið hefur verið að fella stofnnetið að kerfum Ljósleiðarans. Á fyrri helmingi ársins fellur ytri kostnaður vegna kaupa stofnnetsins hlutfallslega þyngra til en tekjur miðað við þegar fram í sækir. Vöxtur gjalda er því nánast samsvarandi tekjuvextinum í uppgjörinu,“ segir í uppgjörstilkynningunni.

Rekstrarhagnaður Ljósleiðarans (EBIT) lækkuðu úr 630 milljónum í 520 milljónir milli ára. Hrein fjármagnsgjöld jukust um 19% milli ára og námu 1,1 milljarði á fyrri árshelmingi.

Eignir Ljósleiðarans námu 37,1 milljarði króna í lok júní og eigið fé var um 12,4 milljarðar. Eiginfjárhlutfall Ljósleiðarans lækkaði úr 34,7% í 33,5% á fyrri árshelmingi.

Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, áréttar í tilkynningunni að nú standi yfir endurskoðun á fjármagnsskipan fyrirtækisins. Það ferli hefur m.a. falið í sér að félagið hefur unnið í rúm tvö ár að því að sækja nýtt hlutafé sem hefur gengið erfiðlega.

„Aðlögun stofnnets Sýnar að okkar rekstri hefur gengið vel og árshlutareikningurinn ber með sér að undirliggjandi rekstur Ljósleiðarans er traustur,“ segir Einar.

„Umhverfið er vissulega krefjandi og val okkar á fjárfestingarverkefnum tekur auðvitað mið af því. Við erum með heimild til aukningar og sölu hlutafjár og erum að vinna að því að létta á skammtímaskuldum rekstursins.“

Samhliða birtingu ársreiknings 2023 í febrúar tilkynnti Ljósleiðarinn að félagið hefði dregið úr fjárfestingum þangað til niðurstaða fæst í hlutafjáraukningu félagsins.

Í ársreikningi Orkuveitunnar fyrir árið 2023 kom fram að Orkuveitan, sem er í eigu Reykjavíkurborgar (93,5%), Akraneskaupstaðar (5,5%) og Borgarbyggðar (0,9%), hefði samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningunni ef ekki reynist áhugi meðal fjárfesta að kaupa hlut í félaginu.

Þann 7. maí síðastliðnum sendi Ljósleiðarinn frá sér tilkynningu þar sem félagið sagði að ofangreint „endurmat fjárfestingarþarfar Ljósleiðarans“, þ.e. að dregið var úr áformuðum fjárfestingum félagsins, hafi gert það að verkum að félagið telji sig nú búa yfir nægjanlegu handbæru fé til rekstrar á árinu 2024. Því muni að óbreyttu ekki koma til þess að Orkuveitan leggi Ljósleiðaranum til aukið hlutafé.