Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tapaði 87 milljónum króna árið 2022 samanborið við 273 milljóna hagnað árið 2021. Rekstrarhagnaður félagsins jókst milli ára en fjármagnsgjöld jukust hins vegar verulega. Ljósleiðarinn birti ársreikning fyrir í dag.
Rekstrartekjur Ljósleiðarans jukust um 13% á milli ára og námu 3,8 milljörðum króna. Rekstrarkostnaður félagsins jókst um 12% og nam 1,1 milljarði. Rekstrarhagnaður (EBIT) Ljósleiðarans jókst um 111 milljónir á milli ára og nam 1,3 milljörðum.
„Framlegð rekstursins – EBITDA – óx á milli ára og var, eins og fyrri ár, nýtt til fjárfestinga og áframhaldandi vaxtar fjarskiptakerfis Ljósleiðarans,“ segir í afkomutilkynningu félagsins.
Hrein fjármagnsgjöld Ljósleiðarans jukust úr 847 milljónum í 1,4 milljarða á milli ára eða um 66%.
„Rekstur Ljósleiðarans gekk vel á árinu 2022 og var tekjuvöxtur og rekstrarhagnaður umfram áætlanir. Mikil verðbólga og hækkun vaxta hafði hins vegar talsverð áhrif á afkomu félagsins og varð til þess að félagið skilaði 87 m.kr. tapi á árinu,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
„Rekstrarhorfur fyrir árið 2023 eru góðar en hár fjármagnskostnaður mun áfram hafa talsverð áhrif, sérstaklega í ljósi þess að nauðsynlegt er að byggja upp og fjárfesta til að mæta nýjum áskorunum á fjarskiptamarkaði og tengja allt það nýja húsnæði sem er í byggingu.“
Erling segir að talsverðar breytingar hafi orðið á fjarskiptamarkaði á árinu 2022. Mila, stærsta innviðafyrirtæki landsins, var selt til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian. Einnig hafi hernaðarátök í Evrópu beint sjónum mjög að fjarskiptaöryggi.
Þá tryggði Ljósleiðarinn sér leigu á á þráðum í NATO-ljósleiðaranum umhverfis landið. Ljósleiðarinn samdi einnig um 3 milljarða króna kaup á stofnneti Sýnar og gerði 12 ára þjónustusamning „hvorttveggja í því skyni að efla öryggi fjarskipta innanlands og tryggja að Ljósleiðarinn væri áfram samkeppnishæfur á breyttum fjarskiptamarkaði, almenningi til hagsbóta“.
Á hluthafafundi Ljósleiðarans í október var samþykkt tillaga stjórnar um aukningu hlutafjár félagsins um allt að 4,3 milljarða að nafnverði og sölu nýja hlutafjárins. Samþykktin var gerð með fyrirvara um staðfestingu eigenda Orkuveitunnar.
Þegar tilkynnt var um fyrirhuguðu hlutafjáraukninguna kom fram að stefnt væri að því að ljúka henni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.