Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tapaði 248 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Til samanburðar tapaði Ljósleiðarinn 72 milljónum á sama tímabili í fyrra. Félagið birti árshlutauppgjör í dag.
Verri afkomu má einkum rekja til aukins fjármagnskostnaðar en hrein fjármagnsgjöld námu 941 milljón á fyrri árshelmingi 2023 samanborið við 682 milljónir á sama tíma í fyrra.
Tekjur Ljósleiðarans jukust um 11% á milli ára og námu rúmum tveimur milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst einnig um 11% og nam 1,4 milljörðum króna. EBIT-hagnaður nam 631 milljón króna.
Eignir félagsins í lok júní voru bókfærðar á 34,3 milljarða króna og eigið fé var um 13,2 milljarðar í lok tímabilsins. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 38,5%.
„Við Ljósleiðarafólk stöndum á mjög spennandi tímamótum. Um leið og okkar hefðbundnu verkefni í fjárfestingum og rekstri ganga vel, erum við í senn að undirbúa að taka á móti nýjum meðeigendum OR að fyrirtækinu og nýjum framkvæmdastjóra. Vöxtur fyrirtækisins er kröftugur, framtíðartekjur traustar með langtímasamningum,“ segir Birna Bragadóttir, formaður stjórnar Ljósleiðarans.
„Með breyttri fjárhagsskipan festum við Ljósleiðarann enn frekar í sessi sem þann valkost í grunnkerfum fjarskipta sem er nauðsynlegur heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaðnum hér á landi. Það eru því skemmtilegir og áhugaverðir tímar fram undan hjá Ljósleiðaranum.“
Vinna að hlutafjáraukningu - engin ákvörðun tekin hjá stjórn OR
Ljósleiðarinn tilkynnti fyrst í júní 2022 að undirbúningur að hlutafjáraukningu væri hafinn. Fyrirhuguð hlutafjáraukning, með aðkomu annarra fjárfesta en OR, var samþykkt á hluthafafundi Ljósleiðarans í lok október með fyrirvara um staðfestingu eigenda, einkum Reykjavíkurborgar. Stefnt var að ljúka hlutafjáraukningunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.
Endanlegt samþykki eigenda OR - – Reykjavíkurborg (93,5%), Akraneskaupstaður (5,5%) og Borgarbyggð (0,9%) - fékkst ekki fyrr en í byrjun maí síðastliðnum. Þau veittu heimild til að hækka hlutafé Ljósleiðarans um allt að 3,25 milljarða að nafnverði, eða sem nemur 33,33% af heildarhlutafé eftir útgáfu ef heimildin er nýtt til fulls.
„Að baki í ferlinu eru meðal annars formlegar ákvarðanir af hálfu stjórna félaganna og eigenda OR. Sérstakar tilkynningar hafa verið sendar út í tengslum við söluferlið og verður svo áfram. Tímasetningu verður hagað eftir markaðsaðstæðum og gegnsætt söluferli kynnt opinberlega,“ segir í uppgjörstilkynningu Ljósleiðarans í dag.
Arion banki er Ljósleiðaranum og Orkuveitunnar til ráðgjafar og mun halda utan um söluferlið. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um nýlega var minnisblað frá Arion lagt fyrir stjórn OR á stjórnarfundi í byrjun sumars. Taka átti hlutafjáraukningu Ljósleiðarans fyrir á aukafundi stjórnar OR þann 14. ágúst síðastliðinn.
Í svar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um hlutafjáraukninguna á þeim fundi.
Til stendur að nýta hlutafjáraukninguna til að greiða niður lán til uppbyggingar landshrings Ljósleiðarans. Hlutverk hans er að efla samkeppni með því að þjóna fjarskiptafyrirtækjum um gagnaflutninga, einkum í farsímakerfum þeirra.
Erling Freyr Guðmundsson, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra Ljósleiðarans frá árinu 2015, lét af störfum fyrr í sumar en hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrar hjá atNorth.
Dagný Jóhannesdóttir sem hefur gegnt stöðu forstöðumanns Tækniþjónustu og afhendingar tók við starfinu þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn til Ljósleiðarans.