Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tapaði 248 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Til samanburðar tapaði Ljósleiðarinn 72 milljónum á sama tímabili í fyrra. Félagið birti árshlutauppgjör í dag.

Verri afkomu má einkum rekja til aukins fjármagnskostnaðar en hrein fjármagnsgjöld námu 941 milljón á fyrri árshelmingi 2023 samanborið við 682 milljónir á sama tíma í fyrra.

Tekjur Ljósleiðarans jukust um 11% á milli ára og námu rúmum tveimur milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst einnig um 11% og nam 1,4 milljörðum króna. EBIT-hagnaður nam 631 milljón króna.

Rekstrarniðurstaða Ljósleiðarans á fyrri árshelmingi á síðustu sex árum.
Rekstrarniðurstaða Ljósleiðarans á fyrri árshelmingi á síðustu sex árum.

Eignir fé­lagsins í lok júní voru bókfærðar á 34,3 milljarða króna og eigið fé var um 13,2 milljarðar í lok tíma­bilsins. Eigin­fjár­hlut­fall fé­lagsins var því 38,5%.

„Við Ljós­leiðar­a­fólk stöndum á mjög spennandi tíma­mótum. Um leið og okkar hefð­bundnu verk­efni í fjár­festingum og rekstri ganga vel, erum við í senn að undir­búa að taka á móti nýjum með­eig­endum OR að fyrir­tækinu og nýjum fram­kvæmda­stjóra. Vöxtur fyrir­tækisins er kröftugur, fram­tíðar­tekjur traustar með lang­tíma­samningum,“ segir Birna Bragadóttir, formaður stjórnar Ljósleiðarans.

„Með breyttri fjár­hags­skipan festum við Ljós­leiðarann enn frekar í sessi sem þann val­kost í grunn­kerfum fjar­skipta sem er nauð­syn­legur heil­brigðri sam­keppni á fjar­skipta­markaðnum hér á landi. Það eru því skemmti­legir og á­huga­verðir tímar fram undan hjá Ljós­leiðaranum.“

Vinna að hlutafjáraukningu - engin ákvörðun tekin hjá stjórn OR

Ljósleiðarinn tilkynnti fyrst í júní 2022 að undirbúningur að hlutafjáraukningu væri hafinn. Fyrirhuguð hlutafjáraukning, með aðkomu annarra fjárfesta en OR, var samþykkt á hluthafafundi Ljósleiðarans í lok október með fyrirvara um staðfestingu eigenda, einkum Reykjavíkurborgar. Stefnt var að ljúka hlutafjáraukningunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.

Endanlegt samþykki eigenda OR - – Reykjavíkurborg (93,5%), Akraneskaupstaður (5,5%) og Borgarbyggð (0,9%) - fékkst ekki fyrr en í byrjun maí síðastliðnum. Þau veittu heimild til að hækka hlutafé Ljósleiðarans um allt að 3,25 milljarða að nafnverði, eða sem nemur 33,33% af heildarhlutafé eftir útgáfu ef heimildin er nýtt til fulls.

„Að baki í ferlinu eru meðal annars form­legar á­kvarðanir af hálfu stjórna fé­laganna og eig­enda OR. Sér­stakar til­kynningar hafa verið sendar út í tengslum við sölu­ferlið og verður svo á­fram. Tíma­setningu verður hagað eftir markaðs­að­stæðum og gegn­sætt sölu­ferli kynnt opin­ber­lega,“ segir í uppgjörstilkynningu Ljósleiðarans í dag.

Arion banki er Ljós­leiðaranum og Orku­veitunnar til ráð­gjafar og mun halda utan um sölu­ferlið. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um nýlega var minnisblað frá Arion lagt fyrir stjórn OR á stjórnarfundi í byrjun sumars. Taka átti hlutafjáraukningu Ljósleiðarans fyrir á aukafundi stjórnar OR þann 14. ágúst síðastliðinn.

Í svar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins í dag kemur fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um hlutafjáraukninguna á þeim fundi.

Til stendur að nýta hlutafjáraukninguna til að greiða niður lán til upp­byggingar lands­hrings Ljós­leiðarans. Hlut­verk hans er að efla sam­keppni með því að þjóna fjar­skipta­fyrir­tækjum um gagna­flutninga, einkum í far­síma­kerfum þeirra.

Er­ling Freyr Guð­munds­son, sem gegndi stöðu fram­kvæmda­stjóra Ljós­leiðarans frá árinu 2015, lét af störfum fyrr í sumar en hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrar hjá atNorth.

Dag­ný Jóhannes­dóttir sem hefur gegnt stöðu for­stöðu­manns Tækni­þjónustu og af­hendingar tók við starfinu þar til nýr fram­kvæmda­stjóri verður ráðinn til Ljós­leiðarans.