REC Sjóðir, rekstraraðili sérhæfðra sjóða í eigu Arcur ehf., hafa stofnað samstarfsvettvang fyrir lánsfjármögnun innviða og lokið fjármögnun á nýjum sjóði sem ber nafnið Innviðafélag Íslands slhf.

Sjóðurinn, sem er fjármagnaður af lífeyrissjóðum, sérhæfir sig í lánsfjármögnun innviðaverkefna hvort heldur er á framkvæmdartíma verkefna í upphafi þeirra og/eða í tengslum við fjármögnun slíkra verkefna til lengri tíma.

Gert er ráð fyrir meðfjárfestingum lífeyrissjóða á þeim samstarfsvettvangi sem Innviðafélags Íslands er, samkvæmt sérstöku áskriftarfyrirkomulagi. Með því styðji sjóðurinn við fjármögnun stærri innviðaverkefni á Íslandi.

Sigurður Kristinn Egilsson, framkvæmdastjóri Innviðafélags Íslands, segir að fjárfestingargeta samstarfsvettvangsins, þ.e. sjóðurinn ásamt meðfjárfestingum samkvæmt áskriftarsamningi við lífeyrissjóði, sé að lágmarki 23 milljarðar.

„Stofnun á þessum samstarfsvettvangi fyrir fjármögnun innviða á Íslandi er gríðarlega jákvætt og hjálplegt skref til að lyfta því grettistaki sem þarf til að hraða uppbyggingu innviða á Íslandi. Af nægu er að taka á þeim vettvangi,“ segir Sigurður Kristinn.

„Sérstaða sjóðsins er m.a. að geta fjármagnað innviðaverkefni frá því framkvæmdir hefjast, samhliða því að langtímafjármögnun er tryggð.“

Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins er áætluð uppsöfnuð fjárþörf til viðhalds innviða yfir 680 milljarðar. Þá er ótalin fjárþörf vegna nauðsynlegra nýfjárfestinga.

Sigurður Kristinn segir því ljóst að mikil þörf sé fyrir lánsfé í þessari vegferð og Innviðafélag Íslands verði hreyfiafl í þeirri vegferð.