Fjármögnun Frumtaks IV, nýs vísisjóðs á vegum Frumtak Ventures, lauk á dögunum. Við fjárfestingar er horft til fyrirtækja sem hafa burði til að leysa flókin vandamál á tímum þar sem tækninni fleygir áfram.

„Nú eru fleiri og fleiri fyrirtæki, bæði í núverandi eignasafni en líka þau sem við erum að skoða, að nýta sér til dæmis gervigreindina til þess að leysa þessi vandamál. Við sjáum fullt af tækifærum á því sviði, þar sem við erum kannski að leysa vandamál rótgróinna atvinnugreina með gervigreind og sjálfvirknivæðingu,“ segir Andri Heiðar Kristinsson, fjárfestingarstjóri sjóðsins og meðeigandi Frumtak Ventures.

Fjárfest í frumkvöðlum í 15 ár

Frá árinu 2009 hefur Frumtak fjárfest í 30 sprotafyrirtækjum í gegnum vísisjóðina Frumtak, Frumtak II og Frumtak III. Þá hafa erlendir fagfjárfestar fjárfest samhliða Frumtaki fyrir yfir 10 milljarða í eignasafninu. Félögin í eignasafni Frumtaks veltu yfir 16 milljörðum árið 2023.

Á meðal virkra félaga í eignasafninu sem hafa náð yfir hálfum milljarði í árlegri veltu eru Controlant, Sidekick Health, Meniga, Activity Stream og Kaptio. Þá hefur Frumtak fjárfest í og selt félög á borð við DataMarket, TrackWell, Valka, MainManager og AGR Dynamics.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.