Afkoma Síldarvinnslunnar hf. árið 2024 bar merki af áföllum sem höfðu áhrif á sjávarútveg á Íslandi. Loðnubrestur og eldsumbrot á Reykjanesi höfðu áhrif á afkomu fyrirtækisins og leiddu til samdráttar í rekstrartekjum og EBITDA.
Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar drógust saman um 19,7% milli ára og námu 325,1 milljón dala á árinu 2024, samanborið við 404,7 milljónir dala árið 2023.
Helstu skýringar eru engar loðnuveiðar á árinu og skerðing á starfsemi bolfiskvinnslu vegna jarðhræringa við Grindavík. Í uppgjörinu segir að eldgosin höfðu áhrif á aðgang að víðtækri innviðastarfsemi og var til bráðabirgða sett upp saltfiskvinnsla í Helguvík, auk þess sem fiskur var fluttur til vinnslu erlendis.
Forstjóri Síldarvinnslunnar, Gunnþór Ingvason, segir stöðuna hafa verið afar krefjandi en þrátt fyrir fyrrnefnd áföll tókst ágætlega að spila úr stöðunni og seinni hluti ársins var góður.
Markaðir sterkir, en kostnaður vaxandi
Þó að aflabrestur hafi haft neikvæð áhrif á rekstur hefur markaður fyrir uppsjávarafurðir verið sterkur og verð hafa haldist há. Verð á fiskimjöli var sérstaklega sterkt en verð á lýsi hefur gefið eftir. Síldveiðar gengu vel í haust og veiddist makríll þó að hann hafi verið erfiðari í veiðum en árið áður.
Gunnþór segir ljóst að orkuöflun þjóðarinnar hafi verið vanrækt til lengri tíma. Afleiðingin er takmarkað framboð á raforku, sem hefur leitt til umtalsverðra verðhækkana hjá raforkuframleiðendum.
Auknar álögur og hækkandi kostnaður, svo sem hækkandi launakostnaður, kolefnisgjöld og hækkun veiðigjalda, setja aukinn þýsting á reksturinn. Auk þess hafa orkumál verið áhyggjuefni, þar sem hátt orkuverð og takmarkað framboð hafa haft áhrif á rekstrarumhverfi síðustu misseri.
„Kolefnisgjöld hafa verið hækkuð á olíu ásamt öðrum álögum. Þessar aðstæður gera íslenska landvinnslu, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski, sífellt veikari í samkeppni við önnur lönd.
Veiðigjöld á uppsjávarfisk hækkuðu verulega um síðustu áramót og munum við finna fyrir þeim áhrifum á komandi ári,“ segir Gunnþór.
Hann bætir við að íslenskur sjávarútvegur sé í alþjóðlegri samkeppni, og því sé nauðsynlegt að standa vörð um samkeppnishæfni greinarinnar.
„Hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja fyrirsjáanleika, regluverk og umhverfi sem gerir útflutningsgreinar okkar samkeppnishæfar, þannig styðjum við best við lífskjör á landi hér,” segir Gunnþór.
Hagnaður tæpir 6 milljarðar
Hagnaður Síldarvinnslunnar á árinu nam 44,1 milljón Bandaríkjadala, sem samsvarar um 5,9 milljörðum íslenskra króna en félagið hagnaðist um 73,4 milljónir dala árið 2023.
EBITDA- afkoma var 84,0 milljónir dala, sem nemur 25,8% af rekstrartekjum, en var 30,1% árið 2023. Þetta sýnir verulegan samdrátt í afkomu fyrirtækisins. Heildareignir voru 1.060 milljónir dala og eiginfjárhlutfall 60,7%, sem þróast þó í óvísari átt vegna ytri skilyrða.
Gunnþór segir að óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesi sé enn til staðar sem mun ásamt kvótasamdrætti í uppsjávarfiski, hækkandi rekstrarkostnaður og hátt orkuverð hafa áhrif á árið 2025.
Að hans sögn þarf að mæta loðnubresti með auknum rannsóknum og bættri stjórn veiðanna, þrátt fyrir áskoranirnar er trú á að sjávarútvegur muni aðlaga sig breyttu umhverfi og auka virðisaukningu til framtíðar.