Talsverðar breytingar verða á ferli rammaáætlunar ef frumvarp ráðherra nær fram að ganga, en því er ætlað að bæta málsmeðferð og auka skilvirkni í ferlinu öllu.

Hagsmunaaðilar hafa gagnrýnt rammaáætlun harðlega frá því að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun tóku gildi fyrir rúmum áratug og snýr sú gagnrýni meðal annars að því hversu tímafrekt ferlið er.

Í frumvarpinu um breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem byggt er á vinnu starfshóps sem skilaði af sér tillögum um áramótin, eru ýmis skref tekin til að stytta ferlið.

Frumvarpið gekk til umhverfis- og samgöngunefndar og rann umsagnarfrestur út fyrir helgi. Hagsmunaaðilar fagna því upp til hópa að til standi að bæta málsmeðferð rammaáætlunar og einfalda ferla en þó væri nauðsynlegt að ganga enn lengra.

Viðskiptaráð segir að rammaáætlun hafi hvorki leitt til aukins gagnsæis né sátta í samfélaginu um orkunýtingu heldur þvert á móti hefur kerfið skapað óvissu, tafir og hindranir í nauðsynlegum orkuskiptum og framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Þá sé í frumvarpinu ekki bætt úr þeim grundvallarannmarka á fyrirkomulaginu sem lýtur að aðkomu ráðherra og Alþingis, en það hafi verið helsta orsök tafa á afgreiðslu virkjunarkosta.

Samtök atvinnulífsins benda enn fremur á jarðhræringar á Reykjanesi, þar sem margir virkjunarkostir í nýtingarflokki eru staðsettir, og segja mikilvægt að rammaáætlun sé ekki eingöngu skjal um flokkun heldur lifandi stefnumótandi verkfæri sem tekur mið af breytingum á umhverfi og áhættu.

Samtökin styðja lagabreytingarnar en undirstrika að jafnvel bestu lagabreytingar skili ekki tilætluðum árangri nema þeim sé framfylgt af festu og raunverulegur árangur breytinganna ráðist af því hvernig verkefnisstjórnir og ráðuneytið standa að framkvæmd þeirra í reynd.

Samorka bendir loks á að núverandi kerfi sé óhagkvæmt bæði þjóðhagslega og fyrir einstaka framkvæmdaraðila, skortur sé á stjórnfestu og fyrirsjáanleika um hvenær og hvernig virkjunarkostir verða metnir og af hverjum, auk þess sem meginsjónarmið stjórnsýsluréttar eigi ekki við um vinnu faghópa eða verkefnisstjórnar.

Ferlið sé óskilvirkt og langdregið, árangurinn lítill sem enginn, og forsendur breyst frá því að lögin voru sett. Endurskoðunin sem boðuð er í frumvarpinu gangi skammt og enn vanti mikið upp á að tekið sé á þeim vanköntum rammaáætlunar sem bent hefur verið á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.