Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hefur greitt yfir 60 milljónir króna fyrir aðkeypta lögfræðiþjónustu frá árinu 2018, að því er kemur fram í svari ríkisfyrirtækisins við Fréttablaðið.
Stærstur hluti þess kostnaðar féll í fyrra eða um 20 milljónir króna. Þá nemur lögfræðikostnaður ÁTVR það sem af er ári er 9,7 milljónum króna. Árið 2020 greiddi ríkisfyrirtækið 10 milljónir í lögfræðikostnað og 8 milljónir árið 2019.
ÁTVR höfðaði mál í fyrra gegn Santewines, Bruggúsinu Steðju og Bjórlandi í fyrra og fór fram á lögbann á starfsemi fyrirtækjanna þriggja. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá öllum kröfum ÁTVR í mars á þessu ári. ÁTVR var gert að greiða félögunum málskostnað. Ríkisfyrirtækið tilkynnti stuttu síðar að það myndi una niðurstöðunni en telji þó áfram að slíkar vefverslanir samrýmist ekki lögum.
Þá kærði ÁTVR einnig Arnar Sigurðsson, frönsku netverslunina Santewines SAS og Sante ehf. til lögreglu og Skattsins. Sante var skaða um að innheimta virðisaukaskatt af seldum vörum án þess að vera með sérstakt virðisaukaskattsnúmer. Í kjölfarið lagði kærði Arnar forstjóra ÁTVR, Ívar J. Arndal til lögreglu vegna rangra sakargifta.
Sjá einnig: Arnar kærði Ívar til lögreglu
ÁTVR tók fram í svari sínu að í rekstri sínum komi margoft upp aðstæður sem krefjist sérhæfðrar lögfræðiþekkingar og aðkomu lögmanna. Helstu málaflokkarnir séu ágreiningsmál sem varði vöruval áfengis og tóbaks, fasteignamál, leigusamninga, skipulagsmál og framkvæmdir. Einnig dómsmál, kærumál og samkeppnismál. ÁTVR gat ekki veitt upplýsingar um heildarkostnað vegna lögfræðiráðgjafar fyrir umsagnarskrif við áfengisfrumvörp.