Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar gefur ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku á landsfundi í haust. Þetta kemur fram í viðtali við Loga í morgun í Fréttablaðinu.
Logi hefur verið formaður síðan í október 2016 eða í sex ár. Segist hann kveðja sáttur en hann sé einnig að axla ábyrgð:
„Við skulum ekkert horfa framhjá því. Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég,“ segir Logi.
Þremur dögum eftir hörð ummæli Össurar
Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar árin 2000-2005 skrifaði færslu á Facebook fyrir þremur dögum þar sem hann birti mynd af Kristrúnu Frostadóttur og spurði hvenær flokkurinn ætlaði að gera hana að formanni. Jafnframt spurði hann hvenær Logi ætlaði að láta gott heita og styðja Kristrúnu.
„Hvenær ætlar Samfylkingin að kalla þessa efnilegustu konu íslenskra stjórnmála til forystu? Hnífskarpur greinandi með pólitíska framtíðarsýn sem hefur svo sárlega skort síðustu árin, þegar flokkurinn hefur hrakist eins og sprek án sýnilegs sjókorts -og uppskorið fylgi í samræmi við það. Öfugt við síðustu formenn hefur hún erindi, sem nær bergmáli.

Hvenær ætlar Logi formaður að láta nótt sem nemur og lýsa stuðningi við að Kristrún Frostadóttir verð leiðtogi flokksins sem fyrir 20 árum var helmingi stærri en Sjálfstæðisflokkurinn er í dag? Mín trú er að atgervi og geta Kristrúnar geti aftur lyft Samfylkingunni í oddaaðstöðu í íslenskum stjórnmálum. Spyrjið andstæðingana - eina manneskjan sem þeir vilja ekki sem formann er Kristrún.“