Logi Már Einars­son menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra lagði fram á ríkis­stjórnar­fundi í morgun minnis­blað um stuðning til einka­rekinna fjölmiðla.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins en hann upp­lýsti þar með ríkis­stjórnina um áform sín um að leggja fram frum­varp um áfram­haldandi stuðning til einka­rekinna fjölmiðla.

Í frétta­til­kynningunni segir að mark­miðið með styrknum sé að viðhalda fyrir­sjáan­leika í rekstri einka­rekinna fjölmiðla og tryggja að þeir geti sinnt lýðræðis­hlut­verki sínu.

Frum­varp Loga mun taka óbreytt upp þau ákvæði sem féllu úr gildi um áramótin og er ráð­gert að gildistími frum­varpsins verði eitt ár og er það að fullu fjár­magnað í fjár­lögum þessa árs.

Í fyrra fengu einka­reknir fjölmiðlar meira en hálfan milljarð frá skatt­greiðendum í rekstrar­stuðning en á sama tíma fékk RÚV um 6 milljarða í fyrra.

„Vinna er hafin við endur­skoðun á kerfinu og tekur hún meðal annars til­lit til þeirra at­huga­semda sem gerðar hafa verið og af vinnu við fjölmiðla­stefnu og ein­stakra þátta hennar en stefnt er að því að leggja fram þingsá­lyktunar­tillögu á vorþingi sem mælir fyrir um fjölmiðla­stefnu. Vinna við endur­skoðun á stuðnings­kerfi einka­rekinna fjölmiðla tekur mið af því að frum­varp þess efnis verði á þing­mála­skrá næsta vetrar,“ segir á vef stjórnarráðsins.