Lögreglan í New York telur sig vita hvar morðingi Brian Thomp­son, for­stjóra United Health, gisti áður en hann fram­kvæmdi verknaðinn og réðst lögreglan í hús­leit í vestur­hluta Man­hattan-eyju á miðviku­dagskvöldið.

Samkvæmt The Wall Street Journal er um að ræða Hostel í borginni.

Líkt og greint var frá í gær telur lögreglan að morðið á Thomp­son hafi verið þaul­skipu­lagt og stendur mikil leit yfir í borginni að hinum grunaða.

Eric Adams, borgar­stjóri New York borgar, sagði í gær­morgun að rannsókn lög­reglu miði vel áfram og að hann sé sann­færður um að lögreglan muni hafa uppi á manninum.

Adams, sem var lög­reglu­maður í New York til lengri tíma, segir það sláandi að sjá að morðinginn notaði hljóðdeyfi.

„Á öllum mínum starfs­ferli hjá lög­reglunni hef ég aldrei séð hljóðdeyfi áður. Það er eitt­hvað sem er sláandi fyrir okkur öll,“ sagði Adams í gær.

Í gær­morgun voru birtar ljós­myndir sem sýna and­lit manns sem lögreglan vill ná tali af í tengslum við skotárásina. Sá hinn sami virðist vera skæl­brosandi að halla sér yfir af­greiðslu­borð.

Lögreglan hefur boðið fram 10 þúsund dali, um 1,4 milljónir króna, fyrir upp­lýsingar um ódæðis­manninn.

Lögreglan birti þessar myndir í gær og óskar eftir því að ná tali af manninum.

The Wall Street Journal lýsti at­burðarás miðviku­dagsins í frétt í gær.

Ár­legur fjár­festa­dagur United Health Group var haldinn á miðviku­dags­morgun. Boðið var upp á morgun­mat og um klukkan átta hóf hópur fjár­festa, stjórn­enda og greiningaraðila frá Wall Street að safnast saman í sal á þriðju hæð Hilton-hótelsins í Mid­town Man­hattan til að hlýða á kynningar um framtíð fyrir­tækisins, sem er stærsta sjúkra­trygginga­fyrir­tæki Bandaríkjanna.

Þá vissu viðstaddir ekki að einn af helstu stjórn­endum fyrir­tækisins hafði verið myrtur fyrr um morguninn fyrir utan hótelið í árás sem lögreglan segir hafa verið þaul­skipu­lagða.

Brian Thomp­son for­stjóri United Healt­h­care var skammt frá aðalinn­gangi Hilton hótelsins klukkan 6:44 á miðviku­dags­morgun þegar árásar­maðurinn, klæddur í dökka hettu­peysu og með gráa bak­poka, fylgdi Thomp­son ró­lega eftir í nokkur skref áður en hann skaut hann með 9 mm skamm­byssu. Árásar­maðurinn flúði í gegnum sund og hvarf á reiðhjóli, að sögn lög­reglu.

Það var ekki fyrr en um klukkan níu leytið sem Andrew Witty, for­stjóri United­Health Group, móður­fyrir­tækis United­Healt­h­care, aflýsti fundinum „vegna mjög al­var­legs ástands hjá einum úr okkar teymi. Ég er viss um að þið skiljið það.“

Upp­lýsingar um skotárásina höfðu þá þegar farið um salinn eins og eldur í sinu. Thomp­son var úr­skurðaður látinn klukkan 7:12.