Lögreglan rann­sakar meint ljúg­vitni tveggja endur­skoðenda hjá KPMG og PWC í tengslum við einkamál Lyfja­blóms gegn Þórði Má Jóhannes­syni, fyrrum for­stjóra Gnúps, og Sól­veigu G. Péturs­dóttur, fyrr­verandi dóms- og kirkjumálaráðherra.

Um er að ræða vitnis­burði Helga F. Arnars­sonar, fyrrum persónu­legs endur­skoðanda Þórðar Más, og Stefáns Bergs­sonar hjá PWC í málinu en héraðs­dómur sýknaði Þórð og Sól­veigu af 2,3 milljarða króna kröfu Lyfja­blóms árið 2022.

Lyfja­blóm segir jafn­framt í frétta­til­kynningu að félagið sé að undir­búa lög­reglukæru gegn Þórði Má vegna rökstudds gruns um ljúg­vitni fyrir dómi sem og vegna rökstudds gruns um að hann hafi lagt fram röng sönnunar­gögn í málinu til að reyna að hafa áhrif á úr­slit dóms­málsins.

Sem fyrr segir sýknaði Héraðs­dómur Sól­veigu og Þórð af 2,3 milljarða króna skaða­bótakröfu Lyfja­blóms ehf.

Málið hafði áður hlotið efnis­með­ferð fyrir héraðs­dómi árið 2019 en þá voru Þórður og Sól­veig sýknuð á grund­velli tóm­lætis og fyrningar­laga. Niður­stöðunni var áfrýjað til Lands­réttar sem ómerkti dóm héraðs­dóms og vísaði málinu aftur heim í hérað.

Skaða­bótakrafan er nú í höndum Lands­réttar en stefnan gegn Þórði Má byggði á því að hann hefði í störfum sínum sem for­stjóri Gnúps brotið gegn hlut­höfum félagsins.

Krafan á hendur Sól­veigu sneri að því að hún sæti í óskiptu dánar­búi Kristins Björns­sonar, eigin­manns hennar, sem var í for­svari fyrir fjár­festingar sínar og þriggja systra sinna.

Saman áttu þau félagið Björn Hall­gríms­son ehf., eig­anda Gnúps. Nafni félagsins var síðar breytt í Lyfja­blóm.