Lögreglan rannsakar meint ljúgvitni tveggja endurskoðenda hjá KPMG og PWC í tengslum við einkamál Lyfjablóms gegn Þórði Má Jóhannessyni, fyrrum forstjóra Gnúps, og Sólveigu G. Pétursdóttur, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra.
Um er að ræða vitnisburði Helga F. Arnarssonar, fyrrum persónulegs endurskoðanda Þórðar Más, og Stefáns Bergssonar hjá PWC í málinu en héraðsdómur sýknaði Þórð og Sólveigu af 2,3 milljarða króna kröfu Lyfjablóms árið 2022.
Lyfjablóm segir jafnframt í fréttatilkynningu að félagið sé að undirbúa lögreglukæru gegn Þórði Má vegna rökstudds gruns um ljúgvitni fyrir dómi sem og vegna rökstudds gruns um að hann hafi lagt fram röng sönnunargögn í málinu til að reyna að hafa áhrif á úrslit dómsmálsins.
Sem fyrr segir sýknaði Héraðsdómur Sólveigu og Þórð af 2,3 milljarða króna skaðabótakröfu Lyfjablóms ehf.
Málið hafði áður hlotið efnismeðferð fyrir héraðsdómi árið 2019 en þá voru Þórður og Sólveig sýknuð á grundvelli tómlætis og fyrningarlaga. Niðurstöðunni var áfrýjað til Landsréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms og vísaði málinu aftur heim í hérað.
Skaðabótakrafan er nú í höndum Landsréttar en stefnan gegn Þórði Má byggði á því að hann hefði í störfum sínum sem forstjóri Gnúps brotið gegn hluthöfum félagsins.
Krafan á hendur Sólveigu sneri að því að hún sæti í óskiptu dánarbúi Kristins Björnssonar, eiginmanns hennar, sem var í forsvari fyrir fjárfestingar sínar og þriggja systra sinna.
Saman áttu þau félagið Björn Hallgrímsson ehf., eiganda Gnúps. Nafni félagsins var síðar breytt í Lyfjablóm.