Sviðstjóri ákærusviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Hildur Sunna Pálmadóttir, segir í samtali við Ríkisútvarpið að engin ákvörðun hafi verið tekna um hvort ákæra verði gefin út á hendur fyrirtækjum sem reka netverslun með áfengi.

„Ég veit ekki hvaðan hann hefur þessar upplýsingar,“ hefur Ríkisútvarpið eftir Hildi Sunnu, sem var spurð út í fullyrðingu Arnars Sigurðssonar, eiganda Santé, sem hafði greint frá því að lögreglumenn hafi tilkynnt sér að til stæði að ákæra í málinu, en ekki fyrir hvaða sakir.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur lögreglan undanfarið farið á starfsstöðvar netverslana með áfengi. Í að minnsta kosti tveimur þessara heimsókna hafa lögreglumenn upplýst forsvarsmenn netverslana um „að ákærur verði gefnar út“.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur lögreglan á síðustu dögum tekið skýrslur af viðskiptavinum þegar þeir hafa verið að sækja áfengi hjá netverslunum og óskað eftir reikningum vegna viðskiptanna.

Segir ákvörðun væntanlega á næstu vikum

Um fimm ár eru síðan lögreglan hóf rannsókn á netverslun með áfengi. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins lagði fram kæru þann 16. júní 2019 á hendur netverslunum sem þá voru starfræktar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lauk að eigin sögn rannsókn á málum tengdum netverslun með áfengi um mitt síðasta ár. Fór það síðan til ákærusviðs lögreglunnar þar sem það hefur verið í um eitt ár en verið nokkrum sinnum endursent fram og til baka milli ákærusviðs og rannsóknarsviðs.

Hildur Sunna segir rannsókn ákærusviðsins miða vel og bætti við að hún telji að búið sé að afla þeirra gagna sem þyrftu til að taka ákvörðun um ákæru. Aðspurð sagði hún að ákvörðun muni líklega liggja fyrir á næstu vikum.