Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur bætt við ákvæði við frumvarp sitt um almenna skráningarskyldu sem felur í sér að óheimilt verði að semja um að leigufjárhæð taki breytingum á fyrstu 12 mánuðum leigutíma þegar um er að ræða tímabundna leigusamninga.

Gerðar voru breytingar á húsaleigulögum í fyrra, sem tóku gildi 1. september síðastliðinn, sem fólu m.a. í sér að vísitölutenging samninga til 12 mánaða eða skemur varð óheimil. Þá geta bæði leigusali og leigjandi nú skotið ágreiningi um leiguverð til Kærunefndar húsnæðismála, þar sem miðað er við svokallaða markaðsleigu.

Inga Sæland lagði í gær fram frumvarp um breytingu á húsaleigulögum þar sem lögð er til almenn skráningarskylda leigusamninga. Gerðar voru breytingar á efni frumvarpsins eftir samráðsferli á sem lauk í byrjun mánaðarins í ljósi athugasemdar í umsögn ASÍ.

ASÍ benti í umsögn sinni á að eftir gildistöku laganna síðasta haust hefði borið á því að gerðir hafi verið verðtryggðir skammtímasamningar til þrettán mánaða og þannig komist hjá markmiðum laganna um að koma í veg fyrir vísitölutenginu á fyrstu tólf mánuðum leigusamnings.

„Gögn úr leiguskrá staðfesta þessa þróun og voru því gerðar breytingar á frumvarpinu þess efnis að leggja til að óheimilt yrði að semja um að leigufjárhæð breyttist á leigutímanum fyrstu 12 mánuði leigusamnings þegar um væri að ræða tímabundna leigusamninga,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Þannig kemur fram að tímabundnum leigusamningum til 13 mánaða hjá hagnaðardrifnum leigufélögum hafi fjölgað úr 0,6% tímabundinna samninga fyrir gildistöku umræddrar lagabreytingar í 10,7% eftir að hún tók gildi. Hjá einstaklingum fór þetta hlutfall úr 1,1% í 2,3%.

Nú hefur verið bætt við ákvæði við frumvarpið þar sem lagt er til að í tímabundnum leigusamningi verði óheimilt að semja um að leigufjárhæð breytist á fyrstu 12 mánuðum leigutímans.

Alma íbúðafélag, eitt stærsta leigufélag landsins, tilkynnti nokkrum dögum eftir að lögin tóku gildi í september að það myndi ekki bjóða upp á aðra leigusamninga en til 13 mánaða. Áður bauð Alma upp á verðtryggða leigusamninga sem voru frá 12-60 mánaða.

Leigufélagið sagði ákveðna óvissu um hvernig nýjum húsaleigulögum verði framfylgt af Kærunefnd húsamála og því hafi félagið aðlagað þjónustuframboð sitt til að mæta þessari réttaróvissu.