Volkswagen hefur hætt við áætlanir sínar um að loka verksmiðjum í Þýskalandi, eftir mikinn þrýsting frá stéttarfélögum.

Fyrirtækið tilkynnti í september síðastliðnum um mögulegar verksmiðjulokanir í Þýskalandi, sem hefði verið í fyrsta sinn í 87 ára sögu félagsins. Auk þess stóð til að lækka laun starfsfólks um 10%.

Stéttarfélög sömdu við VW um ákveðnar launahækkanir gegn því að VW fái að fækka starfsfólki um 35 þúsund á næstu sex árum, að því er kemur fram í grein Telegraph.

Dregið verður úr rafbílaframleiðslu í verksmiðju félagsins í Zwickau og þá mun framleiðsla á Golf hathback færast frá Wolfsburg til Mexíkó.

Gengi bréfa Volkswagen hefur lækkað um 2,5% frá opnun markaða í Frankfurt.