Íslandspóstur hyggst loka pósthúsinu við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur í lok janúar næstkomandi „en leggja þess í stað meiri áherslu á annars konar þjónustu“.
„Á síðustu árum hefur póstþjónusta á Íslandi tekið stórfelldum breytingum. Frá árinu 2010 hefur fjöldi bréfasendinga dregist saman um 75% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Pósturinn leggur kapp á að aðlagast hratt og örugglega breyttu landslagi og kappkostar að þróa þjónustu sína í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda,“ segir í tilkynningu sem Pósturinn sendi frá sér í gærkvöldi
Viðskiptavinir sem vilja nýta sér afgreiðslu á pósthúsi er bent á pósthúsið Síðumúla sem verði þjónustupósthús fyrir svæðið eftir framangreinda breytingu.
„Við erum svo með fjölmarga snertifleti við viðskiptavini í Vesturbænum og í staðinn fyrir að vera með póstafgreiðsluna áfram erum við búin að setja póstbox á Birkimel og erum jafnframt með fleiri póstbox í nágrenninu, t.d. á Barónsstíg, Granda við Nettó, Eggertsgötu við Krambúðina og Suðurströnd við Orkuna. Það er bæði hægt að sækja og senda í póstboxin og til stendur að fjölga þeim enn frekar á svæðinu,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa.
Eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa dregist saman
Pósturinn segir að viðskiptavinir geri auknar kröfur um sveigjanleika og einfaldar sjálfsafgreiðslulausnir sem leiði af sér að verulega hafi dregið úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er mikið lagt upp úr að þróa annars konar lausnir, á borð við póstboxin.
„Þau hafa alveg slegið í gegn, enda er þar bæði hægt að sækja og senda, hvenær sem viðskiptavinum hentar. Nú eru okkar ánægðustu viðskiptavinir einmitt þeir sem nota póstbox,“ segir Kjartan.
„Þau fyrirtæki sem eru í þjónustu hjá okkur hafa líka notið góðs af þessari nýbreytni og fyrirtækjaþjónustan verður sífellt vinsælli. Við bjóðum nú þegar upp á að sækja og senda vörur heim að dyrum fyrirtækja og nú geta fyrirtækin boðið sínum viðskiptavinum upp á að sækja vörur í póstbox, hvenær sem þeim hentar. Fólk er afar ánægt með þessa viðbót við þjónustuna eins og kannanir hafa sýnt.“