Pósturinn hyggst loka pósthúsum sínum í Mjódd og í Ólafsvík „en leggja þess í stað meiri áherslu á annars konar þjónustu“ að því er segir í tilkynningu. Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, segir að lögð sé áhersla á að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda.
„Dregið hefur úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er lagt upp úr að þróa annars konar lausnir. Okkar ánægðustu viðskiptavinir eru þeir sem nota póstbox auk þess sem í dag er hægt að póstleggja pakka í póstbox. Flest póstboxin eru aðgengileg allan sólarhringinn og eru einföld í notkun“ segir Þórhildur.
Samhliða þessum lokunum er verið að gera breytingar á samstarfssamningum Póstsins við aðila í Hveragerði, Bolungarvík, Súðavík, Grenivík, Laugar og Reykjahlíð. Póstafgreiðslum hjá þessum samstarfsaðilum verður lokað.
Samspil póstboxaþjónustu, póstbílaþjónustu, bréfberaþjónustu og landpóstaþjónustu mun sinna þjónustuhlutverki Póstsins á þessum svæðum, segir Pósturinn.
„Stafræn umbreyting kallar á nýjar nálganir í þjónustu og við verðum að bregðast við því. Um leið ber okkur beinlínis skylda til að leita hagkvæmra leiða í rekstrinum og því eru breytingar sem þessar óhjákvæmilegar.“