Volkswagen Group, sem selur m.a. bíla undir merkjum Audi, Bentley, Lamborghini, Porsche, Skoda og Volkswagen íhugar nú að loka Volkswagen verksmiðjum í Þýskalandi.

Volkswagen Group, sem selur m.a. bíla undir merkjum Audi, Bentley, Lamborghini, Porsche, Skoda og Volkswagen íhugar nú að loka Volkswagen verksmiðjum í Þýskalandi.

Verði það gert yrði það í fyrsta skiptið í 87 ára sögu Volkswagen sem verksmiðjum yrði lokað í Þýskalandi að því er fram kemur í Financial Times. Oliver Blume, forstjóri fyrirtækisins, segir alvarlegt ástand ríkja í evrópska bílaiðnaðinum.

Yfirlýsing Volkswagen kemur í kjölfar frétta um að aðhaldsaðgerðir hafi ekki gengið sem skyldi, þar vanti nokkra milljarða evra upp á. Á sama tíma og eftirspurn eftir rafknúnum ökutækjum hefur minnkað í Evrópu hefur framboðið aldrei verið meira, sérstaklega eftir innreið kínverska bílaframleiðanda á rafbílamarkaðinn.

Verkalýðsforkólfar í Þýskalandi hafa þegar blásið í herlúðra enda hafði Volkswagen lofað því að störfum yrði ekki fækkað á næstu fimm árum.