Landsbankinn spáir því að ársverðbólga verði að meðaltali 3,9% á þessu ári. Þá verði hún 3,8% í lok árs, sama og hún er í dag. Bendir bankinn á að stórir hækkunarmánuðir hafi dottið út úr 12 mánaða mælingum undanfarna mánuði, sem hafi stutt við hjöðnunina en því sé ekki að skipta næstu mánuði.

„Lokahnykkurinn“ gæti því reynst erfiður, eins og segir í hagspá bankans. Á sama tíma og viðbúið sé að framlag húsnæðis til verðbólgunnar haldi áfram að lækka muni áhrif einskiptisbreytinga sem orsökuðu hjöðnun í fyrra detta út úr ársverðbólgunni í haust og þá sé líklegt að hún aukist á ný.

„Um er að ræða niðurfellingu skólagjalda í nokkrum háskólum auk þess sem skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar. Þessu til viðbótar gerum við ráð fyrir að verð á fötum og skóm hækki á árinu, m.a. vegna þess að verðið er enn lægra en það var fyrir útsölur við upphaf árs,“ segir í hagspá bankans.

Verðbólgan haldi síðan áfram að hjaðna á næstu tveimur árum, þó hægt. Ekki séu horfur á að hún komist niður í markmið fyrir lok árs 2027 og spáir Landsbankinn 3% verðbólgu í árslok 2027 með 2% raunstýrivöxtum.

Bendir bankinn á að verðbólguvæntingar hafi ekki gefið eftir eins og vonir hafi staðið til. Peningastefnunefnd Seðlabankans hafi verið nokkuð skýr í þeirri afstöðu sinni að á meðan væntingar gefi ekki eftir þurfi að halda raunstýrivöxtum háum, nálægt núverandi gildum, en í dag eru raunstýrivextir tæplega 4%. Erfitt geti reynst að koma verðbólgunni niður í markmið meðan væntingar eru þrálátar.

„Þótt taumhald peningastefnunnar miðað við liðna verðbólgu hafi haldist þétt á síðustu mánuðum hefur það slaknað verulega ef það er metið út frá verðbólguvæntingum,“ segir jafnframt í hagspá bankans.

5% stýrivextir í lok árs 2027

Á síðasta fundi peningastefnunefndar 19. mars voru vextir lækkaðir um 25 punkta, niður í 7,75%.

Gera má ráð fyrir áframhaldandi lækkun stýrivaxta á næsta fundi nefndarinnar þann 21. maí næstkomandi. Í hagspá Íslandsbanka, sem kom út í lok janúar, er reiknað með að stýrivextir verði komnir niður í 6,5% í árslok 2025.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Hagspár Arion banka og Landsbankans, sem birtust í apríl, gera ráð fyrir hægara vaxtalækkunarferli. Arion spáir 6,75% vöxtum í árslok og Landsbankinn 7%.

Vegna hárra verðbólguvæntinga verður peningalegt aðhald áfram þétt næstu misseri. Árin 2026- 2027 gæti taumhald slaknað lítillega samhliða minni verðbólgu og raunvextir farið í um 2% undir lok árs 2027. Báðir bankar spá um 5% vöxtum í árslok 2027. Arion banki spáir 7,5% meðalstýrivöxtum í ár, 6,2% 2026 og 5,4% 2027. Íslandsbanki gerir ráð fyrir sömu meðalvöxtum í ár, en 5,6% á næsta ári og 5,3% árið 2027.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.