Rafbílaframleiðandinn Tesla tjáði starfsmönnum í gær að skrifstofa fyrirtækisins í borginni San Mateo í Kaliforníu yrði lokuð og samhliða verður meira en helmingur fólks á skrifstofunni sagt upp eða tæplega 200 manns. Lokunin er liður í að draga úr kostnaði. WSJ greinir frá.
Starfsmenn á skrifstofu Tesla í San Mateo hafa að mestu leyti unnið við þróun á ökumannshjálparkerfinu Autopilot.
Sjá einnig: Nýju verksmiðjurnar „risa peningabræðslur“
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Elon Musk, forstjóri Tesla, hefði ákveðið að segja upp 10% af starfsmönnum fyrirtækisins. Hann sagði í pósti til starfsmanna að rafbílaframleiðandinn væri „ofmannaður á mörgum sviðum“. Musk tók þó fram að uppsagnirnar næðu ekki til starfsmanna sem vinna við framleiðslu bíla og rafhlaðna eða þeirra sem setja upp sólarsellur. Jafnframt yrði starfsmönnum á tímakaupi fjölgað.