Félagið N66 ehf., í eigu malasíska athafnamannsins Loo Eng Wah, festi kaup á Hótel Vos við bæinn Norður-Nýjabæ í Þykkvabæ, skammt frá Hellu, í febrúar síðastliðnum. Kaupverðið nemur 260 milljónum króna, en þar af voru yfirteknar skuldir upp á tæplega 90 milljónir.
Seljandi er félagið Norður Nýibær ehf. sem er í eigu Gyðu Árnýjar Helgadóttur. Hún opnaði hótelið árið 2017 með eiginmanni sínum, Hallgrími Óskarssyni.
„Við áttum fjós sem við breyttum, byggðum við það ásamt nýbyggingu og ákváðum að koma upp hóteli sem við opnuðum vorið 2017,“ sagði Gyða Árný við Fréttablaðið í mars 2023.
„Það var búinn að vera smá draumur hjá okkur að fara út í þetta. Fjósið var í bagalegu ástandi og það var annað hvort að rífa það eða byggja upp, sem okkur fannst áhugaverðari kostur. Fyrst kom upp sú hugmynd að opna lítið sætt hótel en þetta endaði í 18 herbergja hóteli.“
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gyða Árný að þau hafi talið vera kominn sá tímapunktur í rekstri hótelsins að annað hvort þyrfti að stækka hótelið eða selja og leyfa einhverjum öðrum að sjá um það verkefni. Hún hefur trú á að nýr eigandi muni gera góða hluti með hótelið.
„Ég hef trú á þessu og hlakka til að sjá aðeins meira líf hérna í Þykkvabænum. Það væri bara dásamlegt,“ segir Gyða Árný.
Loo Eng Wah hefur unnið að uppbyggingu á Leyni í Landsveit undanfarin ár, líkt og mbl.is hefur greint frá. Þar hefur hann haft áform um að reisa þjónustuhús fyrir tjaldsvæði, allt að 800 fermetra byggingu fyrir veitingastað, verslun, móttöku og fleira og allt að 45 gestahús.
Uppbyggingin hefur hins vegar tafist, m.a. vegna andstöðu landeigenda í nágrenni Leynis.