Gene Seroka, hafnarstjóri Los Angeles-skipahafnarinnar, segist búast við 35% samdrætti í afhendingu vara frá Asíu í þessari viku. Hann sagði í viðtali við CNBC að vörumagn sem fer inn um höfnina verði um þriðjungi minna en á sama tíma árið 2024.
Skipaflutningar frá Kína samsvara rúmlega 45% af allri umferð við Los Angeles-höfn en nú hefur Donald Trump sett 145% toll á allar innfluttar vörur sem koma þaðan.
Samhliða minnkandi vöruflutningum segist Seroka búast við því að um fjórðungi skipaferða sem áttu að koma í höfnina í maí verði aflýstar.
„Þar til samkomulag eða rammi um samkomulag næst við Kína þá verður vöruflutningur sem þaðan kemur, burtséð frá nokkrum mismunandi vörum, í besta falli mjög lítill.“
Seroka telur nú að bandarískir smásalar hafi um fimm til sjö vikur þar til áhrif þessarar þróunar fara verulega að bíta. Mörg stórfyrirtæki voru búin að byrgja sig upp til að undirbúa sig fyrir núverandi stöðu en Seroka bætir við að smærri smásalar hafi hins vegar ekki verið í þeirri stöðu að getað pantað umfram magn.