Nýja ríkisstjórn Argentínu hefur tilkynnt að hún muni veikja verðmæti gjaldmiðils síns um meira en 50% gagnvart Bandaríkjadal. Aðgerðin er sögð vera hluti af stuðmeðferð (e. Shock Therapy) sem Javier Milei, nýi forseti landsins, segir að landið þurfi á að halda.

Þá hefur Luis Caputo, efnahagsráðherra Argentínu, einnig tilkynnt um mikinn niðurskurð í opinberum útgjöldum.

Caputo segist hafa erft verstu efnahagslega arfleið í sögu landsins og væri að gera ráðstafanir til að forðast óðaverðbólgu. Aðgerðirnar fela meðal annars í sér lækkun á eldsneytis- og flutningsstyrkjum og frystingu útgjalda á ríkissamningum.

„Við munum verða verr settir en áður í nokkra mánuði, sérstaklega hvað varðar verðbólgu. Ég segi þetta vegna þess, eins og forsetinn segir, það er betra að segja óþægilegan sannleika en þægilega lygi,“ sagði Caputo í sjónvarpsávarpi.

Verðbólga í Argentínu hefur hækkað um 150% á síðasta ári. Þjóðin glímir einnig við miklar ríkisskuldir og búa tæp 40% af þjóðinni undir fátæktarmörkum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fagnað aðgerðunum og segir þær vera mikilvægt skref í átt að því að endurheimta stöðugleika og endurreisa efnahagslega möguleika landsins. Argentína skuldar AGS samtals 44 milljarða dala.

Gengi argentínska pesóans verður lækkað í 800 pesóa gagnvart Bandaríkjadal úr 391 pesóum.

Frjálshyggjumaðurinn Milei tók við embætti forseta á sunnudaginn en hann hefur gefið mörg loforð um mikinn niðurskurð útgjalda og var meðal annars þekktur fyrir að beita vélsög á fjöldafundum til að sýna áætlanir sínar um að draga úr ríkisútgjöldum.