Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, segir það vera ákveðið flækjustig að vera með áfengissölu sem starfar á erlendri grundu. Sjálfur hafi hann alltaf viljað greiða skatt og skyldur á Íslandi, frekar en á Íslandi og í Frakklandi.

Frumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra til breytinga á áfengislögum var birt í samráðsgátt í gær en í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu á grundvelli vefverslunarleyfis.

Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, segir það vera ákveðið flækjustig að vera með áfengissölu sem starfar á erlendri grundu. Sjálfur hafi hann alltaf viljað greiða skatt og skyldur á Íslandi, frekar en á Íslandi og í Frakklandi.

Frumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra til breytinga á áfengislögum var birt í samráðsgátt í gær en í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu á grundvelli vefverslunarleyfis.

Arnar gerir þó nokkrar athugasemdir við frumvarp ráðherra og segir það vera klassískt dæmi um hvernig leysa þurfi ákveðið vandamál með því að finna leiðir fram hjá því, frekar en bara að fjarlægja vandamálið sjálft.

„Dómsmálaráðherra virðist ekki skilja að það þarf ekki að leysa vandamál sem eru bara í hugarheimi einhverra bindindisofstækismanna. Til dæmis þetta með afhendingu áfengis. Nú hafa sendlar og fleiri afhent vín um áraskeið og það hafa ekki skapast nein vandamál.“

Hann undrar sig líka á því hvers vegna óheimilt yrði að afhenda áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst, eins og segir í frumvarpinu.

„Er verið að þóknast biskup með þessu? Ef ÁTVR vill hafa lokað á þessum dögum, þá er það bara fínt. Við tökum okkur líka frídaga eins og á 17. júní og erum heldur ekki að afhenda langt fram eftir kvöldi.“

Arnar segir að til séu vínbúðir út um allt land sem kallast veitingastaðir og hefur vínsala þar ekki skapað nein vandamál. „Ef veitingastaður í 200 manna smábæ er opinn 17. júní, má hann þá ekki selja vín út úr húsi af því það er 17. júní? Til hvers er þetta? Er eitthvað sérstakt drykkjuvandamál hjá fólki á þeim degi eða einhver sérstök aðsókn unglinga þá?“

Varðandi frumvarpið sjálft segir Arnar þetta vera klassískt dæmi um stjórnmálamenn sem vilji frekar tala gegn málefni heldur en að greiða atkvæði gegn því. Frumvarpið gæti því tæknilega séð farið í atkvæðagreiðslu þar sem sitjandi forsætisráðherra hefði ekki ástæðu til að vera á móti því.

„Löstur er ekki glæpur og það á ekki að glæpavæða eitthvað sem þér finnst vera mannlegur löstur. Það má vel vera að þér finnist það vera löstur að vilja kaupa vín á páskasunnudegi, en þú getur ekki ætlast til að það sé glæpur.“