Pólska flugfélagið LOT hefur flug milli Varsjá og Keflavíkurflugvallar (KEF) frá og með 12. apríl 2025. Þetta er í fyrsta sinn sem flugfélagið, sem er það stærsta í Póllandi, flýgur til Íslands.

Félagið ætlar að fljúga til Íslands allt árið um kring. Það áformar að fljúga fjórum sinnum í viku til Keflavíkurflugvallar yfir sumartímann og þrisvar í viku yfir vetrartímann. Flogið verður á Boeing 737 Max 8 vélum flugfélagsins frá Varsjá til KEF að kvöldi og næturflug til baka.

„Við á Keflavíkurflugvelli hlökkum til að taka á móti LOT og farþegum félagsins á næsta ári,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar á Keflavíkurflugvelli.

„Það er alltaf ánægjulegt að bjóða ný félög velkominn í flugvallarsamfélagið á KEF og ég er þess fullviss að LOT verður öflugur samstarfsaðili inn í framtíðina og mikilvæg viðbót á KEF. Með því að velja okkur sem nýjan áfangastað hefur LOT sýnt það í verki að félagið hefur trú á Íslandi sem áfangstað.“

LOT Polish Airlines er ellefta elsta flugfélag í heimi en það fagnar 96 ára afmæli sínu í lok þessa árs. Félagið flýgur til yfir 80 áfangastaða í Asíu, Mið-Austurlöndum, Evrópu og Norður-Ameríku.

„Ísland er sannarlega einstakur áfangastaður sem mun án efa bæta net áfangataða hjá LOT Polish Airlines. Eyjan opinberar stórbrotna fegurð sína allt árið og býður upp á eitthvað sérstakt bæði á sumrin og veturna,“ segir Robert Ludera, en hann stýrir skipulagi á neti áfangastaða og samstarfs fyrir LOT Polish Airlines.

„Þetta er einn af fáum stöðum á jörðinni þar sem hægt er að upplifa goshveri, virk eldfjöll, jökla, heitar laugar og fossa, á einu og sömu eyjunni. Nýja flugleiðin mun einnig bjóða upp á mikil þægindi fyrir pólska samfélagið á Íslandi, sem er nú stærsti þjóðarminnihlutinn þar. Við óskum öllum farþegum okkar góðrar ferðar á vit norðurljósanna.“