Samheitalyfjafyrirtækið Lotus, sem er að stórum hluta í eigu Aztiq, fjárfestingarfélags Róberts Wessman, skilaði sínu besta uppgjöri í sögu félagsins á þriðja ársfjórðungi.
Hagnaður Lotus nam 97 milljónum dala á fyrstu níu mánuðum ársins, eða sem nemur 14 milljörðum króna. Tekjur félagsins á sama tímabili námu 390 milljónum dala eða 57 milljörðum króna. Nettó sala Lotus á þriðja ársfjórðungi nam um 25 milljörðum króna og jókst um 85% á milli fjórðunga og 76% frá sama tímabili í fyrra.
„Hagnaðurinn er að mestu til kominn vegna einstaklega vel heppnaðrar markaðssetningu og sölu á lyfinu Lenalidomide (samheitalyf Revlimid) í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr í sögu Lotus hefur eitt lyf náð eins víðtækri og mikilli sölu og Lenalidomide,“ segir í uppgjörstilkynningu Lotus. Þá hafi sala í Brasilíu meðal þátta sem skýri tekjuaukningu.
Útflutningstekjur fyrirtækisins jukust um 245% miðað við síðasta ársfjórðung og um 183% sé miðað við sama tímabil í fyrra.
Markaðsvirði Lotus, sem er stærsta lyfjafyrirtækið á aðallista kauphallar Taívan, nam 1.44 milljörðum dala eða um 207 milljörðum króna.
Aztiq II HoldCo er stæsti hluthafi Lotus en félagið er í eigu Aztiq, fjárfestingarfélags Róberts Wessman, og Innobic/PTT í Taílandi.
Róbert Wessman, stjórnarformaður Lotus:
„Þessi árangur mun örugglega leiða til arðbærasta árs í sögu Lotus. Með sölu og markaðssetningu Lenalidomine í Bandaríkjunum, sem er stærsti lyfjamarkaður í heimi, og með því að vera fyrst inn á markað með lyfið í Brasilíu, hefur Lotus náð stórum áfanga á þeirri vegferð sinni að verða leiðandi samstarfsaðili í sölu og markaðssetningu krabbameinslyfja um allan heim. Ég hef fulla trú á að starfsfólk Lotus muni halda áfram því frábæra starfi sem það hefur sinnt að undanförnu og að fyrirtækið muni áfram halda áfram að vaxa og ná frekari árangri á sviði krabbameinslækninga.“