Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, ákvað á fundi sínum í dag að sjóðurinn muni greiða atkvæði með samþykkt tilboðs um uppgjör HFF-bréfa ÍL-sjóðs á fundi kröfuhafa á morgun. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.
„LSR hefur yfirfarið tillögurnar vandlega og komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum sjóðfélaga sé best þjónað með því að ganga að tilboðinu.“
Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) tilkynnti í dag um að hann hyggist einnig samþykkja tilboðið. Gildi lífeyrissjóður, þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, ætlar hins vegar að greiða atkvæði gegn tillögunni, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í lok síðustu viku.
Þann 10. mars sl. voru lagðar fram tillögur um uppgjör HFF-bréfa til að greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs.
Í tillögunni er virði HFF-bréfanna metið 651 milljarður króna og felst uppgjörið í að ríkissjóður afhendi kröfuhöfum ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 milljarðar króna, verðbréf að andvirði 38 milljarðar og reiðufé að andvirði 73 milljarðar.