Íslenska fyrirtækið Lucinity hefur lokið 17 milljóna dala fjármögnun, eða sem nemur 2,3 milljörðum króna. Fjármögnunarlotan var leitt af breska vísifjárfestinum Keen Venture Partners. Íslenski fjárfestingarsjóðurinn Crowberry, sem leiddi fyrsti fjármögnunarlotu Lucinity, tók einnig þátt í nýafstöðnu umferðinni.
Lucinity framleiðir hugbúnað sem hjálpar bönkum að verjast peningaþvætti á hraðari og skilvirkari hátt. Fyrirtækið var stofnað af forstjóranum Guðmundi Kristjánssyni í nóvember 2018. Guðmundur segir í tilkynningu að fjármögnunin muni gera Lucinity kleift að fjölga viðskiptavinum, samstarfsaðilum og starfsmönnum hraðar ásamt því að bæta vöruúrvalið.
Sjá einnig: Styrkur að starfa á Íslandi í Covid
Í tilkynningunni kemur fram að meðal nýrra viðskiptavina séu danska fjártæknifyrirtækið Pleo og Currencycloud, dótturfélag Visa sem sérhæfir sig í lausnum fyrir gjaldeyrisviðskipti.
„Við stukkum beint um borð í vél á leið til Íslands þegar við heyrðum af fjármögnunarlotu Lucinity,“ er haft eftir Robert Verwaayen, framkvæmdastjóra hjá Keen Venture Partners. „Bankar og fjártæknifyrirtæki eru föst á milli steins og sleggju þegar kemur að því að fylgja regluverki sem er stór hausverkur fyrir þau. Þau eru að reyna að ná utan um hvernig nálgast á verkefnið með raunverulegum áhættumiðuðum hætti.“
Viðskiptablaðið fjallaði um Lucinity fyrir rúmu ári síðan. Þá hafði fyrirtækið alls fengið 8,9 milljónir dala í fjármögnun frá stofnun.