Tekjur þýska flugfélagsins Lufthansa námu 8,5 milljörðum evra á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur tæplega 1.200 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg. Gengi bréfa félagsins hækkaði um allt að 9% í viðskiptum dagsins
Rekstrarhagnaður félagsins á ársfjórðungnum var á bilinu 350-400 milljónir evra, eða um 50-55 milljarðar króna. Það er talsvert umfram spám sérfræðinga sem gerðu ráð fyrir 218 milljóna evru hagnaði.
Í tilkynningu frá félaginu segir að aukna arðsemi megi rekja bæði til aukins ferðavilja en einnig til aukinnar áherslu á vöruflutning. Jafnframt hafi sætanýting á fyrsta farrými verið sérstaklega góð.
Flugiðnaðurinn er að ná vopnum sínum á ný eftir faraldurinn. Takmarkanir á ferðafrelsi höfðu mikil áhrif á geirann eins og við mátti búast.
Það hefur þó víða komið fram skortur á flugvallarstarfsfólki og flugmönnum í heiminum. Þannig eru flugfélög í Evrópu og Bandaríkjunum að skera niður áætlanir sínar til að draga úr aflýstum og frestuðum ferðum, en Lufthansa hefur til að mynda aflýst sex þúsund sumarflugferðum.