Þýska flugfélagið Lufthansa hyggst ráða um tíu þúsund starfsmenn á þessu ári og mun meira en helmingur ráðninganna fara fram í Þýskalandi. Þá mun félagið ráða 1.200 starfsmenn í stjórnunarstöður og um 800 flugmenn.

Samkvæmt WSJ leitast Lufthansa einnig við að ráða meira en tvö þúsund áhafnarmeðlimi, 1.400 flugrekstrarstarfsmenn og um 1.300 tæknifræðinga.

Þá segir einnig að Lufthansa Technik muni ráða tvö þúsund starfsmenn og verða 700 starfsmönnum bætt við til samstæðufyrirtækja félagsins, Austrian Airlines og Eurowings.

Gengi félagsins hefur styrkst undanfarin misseri en tekjur Lufthansa árið 2022 námu 8,5 milljörðum evra á öðrum ársfjórðungi. Þá nam rekstrarhagnaður félagsins 350-400 milljónum evra á sama tíma.