Landssamband veiðifélaga hefur skrifað erindi til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra, þar sem krafist er rannsóknar á málsmeðferð Skipulagsstofnunar, en í apríl dró stofnunin útgefið álit um 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi til baka. Landssambandið krefst þess að ráðuneytið rannsaki og gefi álit um hvort þessi málsmeðferð Skipulagsstofnunar samræmist lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landssambandinu.

Landssambandið telur að ef álitið eigi ekki að standa þá þurfi að endurupptaka málið með útgáfu nýrrar frummatsskýrslu sem auglýst verði til umsagnar. Landssambandið telur einnig að Ísafjarðarbær hafi beitt Skipulagsstofnun óeðlilegum pólítískum þrýstingi til að draga álit sitt til baka. Byggir sambandið þessa afstöðu sína á fundargerðum sveitarfélagsins og fer fram á frekari rannsókn á því.