Franski lúxusvörurisinn LVMH, sem á m.a. Louis Vuitton, Christian Dior og kampavínsframleiðandann Moët & Chandon, varð stærsta fyrirtæki Evrópu á ný eftir lokun markaða sl. föstudag.
Þar með færðist danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk niður í annað sætið. Nam markaðsvirði LVMH 345,3 milljörðum evra en virði Novo Nordisk 344,5 milljörðum evra, eftir lokun markaða á föstudaginn.
Gengi bréfa Novo Nordisk, sem varð verðmætasta fyrirtæki Evrópu síðla árs 2023, hefur lækkað um 28% sl. mánuð, þegar þessi grein er skrifuð.
Gengi bréfa félagsins lækkaði um 4,3% sl. föstudag eftir að yfirvöld vestanhafs tilkynntu að Wegovy og Ozempic yrðu meðal lyfseðilsskyldra lyfja sem myndu lækka enn frekar í verði frá og með árinu 2027. Verðlækkanirnar ná til fólks sem er skráð í Medicare-sjúkratryggingakerfið.
Hlutabréfaverð Novo Nordisk lækkaði um rúm 20% í desember sl. eftir að félagið tilkynnti um niðurstöður rannsókna á Cagrisema, nýju þyngdarstjórnunarlyfi félagsins, sem ollu vonbrigðum. Novo hafði vonast eftir því að Cagrisema gæti orðið arftaki Wegovy og keppt við Zepbound, þyngdarstjórnunarlyf Eli Lilly.