Ættfræðifyrirtækið 23andMe hefur verið keypt af lyfjafyrirtækinu Regeneron Pharmaceuticals fyrir 256 milljónir dala. Fyrirtækið sótti um gjaldþrotavernd í Bandaríkjunum fyrir rúmlega tveimur mánuðum síðan.

Á vef BBC segir að fyrirtækið hafi í síðasta mánuði fengið umboðsmann til að hafa eftirlit með gögnum notenda í kjölfar krafna frá nokkrum ríkissaksóknurum.

Yfirvöld höfðu þá lýst yfir áhyggjum af því að óprúttnir aðilar gætu komist yfir viðkvæm gögn gegn gjaldi. Regeneron segir að félagið muni skuldbinda sig til að fara eftir persónuverndarstefnu og hafi sett upp öryggisráðstafanir til að vernda gögn notenda.

Samningurinn var gerður í gegnum uppboð sem fór fram í síðustu viku. 23andMe mun þá halda áfram starfsemi sinni undir leiðsögn Regeneron, sem segist ætla að nota gögn fyrirtækisins til lyfjaþróunar.