Lyfjastofnun hefur ráðist í uppstokkun á skipuriti sínu og breytingar í stjórnendahóp sínu „vegna þeirra fjárhagslegu áskorana“ sem stofnunin stendur frammi fyrir. Breytingarnar, sem taka gildi á morgun, fela í sér að tvö svið verða lögð niður og fólk færist milli sviða og deilda.
Í nýju skipuriti verða kjarnasvið tvö í stað fjögurra síðustu misseri, og tvö stoðsvið eins og áður. Samhliða þessu fækkar stjórnendum.
„Vegna aðhaldsaðgerða hefur þurft að stokka spilin upp á nýtt og endurskipuleggja vinnu og verkferla. Allra leiða var leitað til að koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks. Það tókst,“ segir í tilkynningu vef Lyfjastofnunar.
Þar segir að ákveðið hafi verið að endurmeta vinnu, verkferla og mönnun á hverjum stað, skoðað hvar draga mætti úr þjónustu og hvar hægt væri að færa til verkefni milli starfseininga til að ná fram aukinni skilvirkni.
„Þegar á síðasta ári var orðið fyrirsjáanlegt að framlag úr ríkissjóði til Lyfjastofnunar drægist saman. Þá þegar var farið í aðhaldsaðgerðir, t.a.m. voru tímabundnir ráðningarsamningar ekki framlengdir, og ekki var ráðið í stað þeirra sem létu af störfum nema brýna nauðsyn bæri til.“

Umboðsmaður tekur símasvörun Lyfjastofunnar fyrir
Lyfjastofnun greindi í lok síðustu viku frá því að starfsmönnum hefði fækkað um 10% á rúmu ári, eða úr 83 í 75 vegna aðhaldskröfu. Stofnunin á vef sínum um 15% samdrátt í framlögum frá ríkissjóði á undanförnum tveimur árum.
Auk þess hefur stofnunin skert símaþjónustu sína þannig að í stað þess að hægt sé að hringja á opnunartíma þarf nú hægt að senda inn beiðni um símtal og óska þannig eftir samtali við sérfræðing.
Í gær tilkynnti Umboðsmaður Alþingis um að hann hefði tekið skerta símaþjónustu Lyfjastofnunar til skoðunar. Umboðsmaður vildi m.a. vita hvort heilbrigðisráðuneytinu hafi verið kunnugt um þessar breytingar og hvaða mat liggi því til grundvallar að tveggja klukkustunda úthringitími starfsmanna stofnunarinnar nægi til að sinna skyldum hennar.
Jafnframt var óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá hvernig slíkir starfshættir samrýmist sjónarmiðum um málshraða og leiðbeiningarskyldu í stjórnsýslu og vönduðum stjórnsýsluháttum.