Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, lagði í liðinni viku í þriðja sinn fram frumvarp til nýrra heildarlaga um leigubifreiðaakstur. Hann segir frumvarpið upphaflega ekki hafa verið afgreitt vegna skiptra skoðana um það. Þegar það hafi verið lagt fram næst hafi allt verið í uppnámi vegna heimsfaraldursins og hvorki hann né þingið lagt mikið kapp á að það yrði klárað, en frumvörpum tengdum faraldrinum hafi þá verið forgangsraðað.
Þá nefnir hann að síðan frumvarpið var lagt fram fyrst hafi stjórnvöldum borist bréf frá ESA, svokallað rökstutt álit, sem sé undanfari dómsmáls. Þar hafi verið farið yfir hvernig núverandi fyrirkomulag fjöldatakmarkana sé brot á stofnsamningi EES.
„Nú erum við komin í gegnum heimsfaraldurinn, markmiðin eru skýr og ég tel okkur ekki vera að ganga mjög langt. Við höfum opnað á frekara samtal við hagsmunaaðila til að ná þessari breytingu fram og tryggja nýsköpun og nútímavæðingu þessarar atvinnugreinar. Annars lendum við í dómsmáli fyrir EFTA-dómstólnum sem við munum væntanlega tapa," segir Sigurður Ingi, sem segist vona að frumvarpið verði samþykkt.
Hann tekur fram að í ljósi dóms Evrópudómstólsins sé mikilvægt að taka fram að farveiturnar séu ekki deilihagkerfi heldur farþegaflutningafyrirtæki og falli þar að leiðandi undir slíka löggjöf. Þá kemur fram í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á leigubifreiðakerfinu að það sé á valdi hvers aðildarríkis fyrir sig hvaða reglur gildi um slíka farþegaflutninga og hvaða kröfur farveiturnar þurfi að uppfylla til að geta boðið þjónustu sína.
Sigurður Ingi nefnir að undanfarin ár hafi Noregur og Finnland verið að gera breytingar á sínum leigubílamarkaði. „Í Finnlandi var allt gefið frjálst. Fyrst um sinn lækkaði verðið en þegar á leið hækkaði verðið verulega og þjónustan varð takmarkaðri," segir hann og nefnir að Norðmenn séu einnig að gera breytingar á sínu umhverfi núna.
Skiptar skoðanir
Guðmundar Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóra leigubílastöðvarinnar BSR, kveðst ekki styðja þann hluta frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir því að opna fyrir innkomu farveitna á markaðinn. „Ég sé enga ástæðu til að stór hluti af veltu leigubílamarkaðarins falli í skaut erlendum aðilum sem borga ekki skatta hér á landi. Ég sé ekki glóru í því, hvorki fyrir leigubílstjóra né þjóðfélagið í heild sinni."
Sigurður Ingi segist skilja það sjónarmið en það sé engin hætta á þessu, þar sem rekstrarleyfið sé einungis bundið við einn bíl. „Við erum ekki að opna á að erlendir aðilar komi, sópi upp markaðnum og fari með allan hagnaðinn úr landi."
Lægra verð fylgi aukinni samkeppni
Fjöldi umsagna barst þegar frumvarpið var síðast lagt fram. Á meðal þeirra var umsögn frá Samkeppniseftirlitinu þar sem eftirlitið fagnar því að verið sé að afnema hindranir inn á leigubílamarkaðinn. „Hins vegar felur frumvarpið í sér flókið og kostnaðarsamt leyfiskerfi með tilheyrandi samkeppnishömlum sem leiða til hærra verðs til neytenda og lakari þjónustu við þá."
Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands við frumvarpið er nefnt að samkvæmt úttekt þeirra á kostnaði við leigubílaþjónustu í mismunandi löndum hafi þjónustan á Íslandi reynst næstdýrust á eftir Sviss. „Almennt má segja að reynsla annarra þjóða sýni að aukin samkeppni á leigubílamörkuðum hafi jafnan áhrif til lækkunar verðs til neytenda," segir í umsögninni en þar er einnig tekið fram að ekkert bendi til þess að slíkt eigi ekki við á Íslandi.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .