Joe Biden hefur sigrað kosninguna í Pennsylvaníu. Með því hefur hann tryggt sér 284 sæti af þeim 270 sem til þarf og verður 46. forseti Bandaríkjanna. Kamala Harris verður varaforseti Bandaríkjanna, fyrst kvenna.

Fréttastofan Associated Press (AP) hefur lýst yfir sigri hans en AP þykir áreiðanlegust fréttastofa í yfirlýsingum kosningaúrslita. Kosningateymi Donalds Trump hefur andmælt yfirlýsingum um sigur Biden og segja þær falskar og langt frá því að úrslit liggi fyrir.

„Kosningunum er ekki lokið. Falskar yfirlýsingar um sigur Joe Biden byggja á niðurstöðum kosninga í fjórum ríkjum sem eru langt í frá endanlegar," segir Matt Morgan yfirlögfræðingur kosningateymisins í yfirlýsingu.

Þegar Andrew Bates, talsmaður kosningateymis Bidens, var inntur eftir viðbrögðum við því að Trump ætli sér ekki að viðurkenna sigur Biden, sagði Bates: „Bandaríska ríkisstjórnin er fullfær um að vísa óviðkomandi út úr Hvíta húsinu.“

Dramatískur sigur

Trump hafði umtalsvert forskot í Georgíu og Pennsylvaníu fyrst um sinn, sem Biden vann jafnt og þétt upp eftir því sem póstatkvæði voru talin. Í gærmorgun náði Biden naumu forskoti á Trump í Georgíu og síðdegis í gær náði hann forskoti í Pennsylvaníu. Enn er deilt um hvort Biden hafi þegar sigrað í Arizona, en AP lýsti yfir sigri Biden í ríkinu á fimmtudag og stendur við það, við lítinn fögnuð kosningateymis Trumps, sem telur hann enn eiga möguleika þar.