Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, og Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi, hafa bæði gagnrýnt himinháar bónusgreiðslur sem Carlos Tavares, forstjóri bílaframleiðandans Stellantis, fékk fyrir árið 2021. Þetta kemur fram í grein hjá AP-fréttastofunni. Franska ríkið er þriðji stærsti hluthafi bílaframleiðandans, er með 6,15% hlut í gegnum ríkisbankann Bpifrance Participations SA.
Þau Macron og Le Pen komust áfram í lokaumferð forsetakosninganna, sem fer fram sunnudaginn 24. apríl. Macron, sem hefur gegnt stöðu Frakklandsforseta síðastliðin fimm ár, er með naumt forskot á Le Pen í skoðanakönnunum.
Bónusgreiðslurnar nema 19 milljónum evra, eða rúmlega 2,6 milljörðum króna. Til viðbótar eru annars konar greiðslur og kaupréttir upp á samtals 57 milljón evra, eða sem nemur 8 milljörðum króna.
„Þetta eru stjarnfræðilegar upphæðir. Við ættum að setja þak á bónusgreiðslur í gegnum evrópska regluverkið," sagði Macron í samtali við franska fjölmiðla.
„Það er átakanlegt að forstjóri sem hefur sett fyrirtæki í mikil vandræði, fái á sama tíma slíkar upphæðir í bónusgreiðslur," sagði Le Pen.
52% hluthafa Stellantis kusu gegn bónusgreiðslunum, en Stellantis sagði í yfirlýsingu að kosningin væri einungis til hliðsjónar, en ekki bindandi. Hreinn hagnaður félagsins á síðasta ári var þrefalt meiri en árið 2020, og nam 13,4 milljörðum evra, eða sem nemur 1,9 milljörðum króna.
Sjá einnig: Samruninn á lokametrunum
Stellantis varð til árið 2021 í gegnum samruna bílaframleiðendanna Fiat Chrysler og PSA Group, sem m.a. framleiðir Peugeot bifreiðar. Höfuðstöðvar félagsins eru í Amsterdam, Hollandi.
Fyrirtækið framleiðir bifreiðavörumerki á borið við Peugeot, Citreon, Vauxhall, Fiat, Jeep, Opel, Maserati og Chrysler.