Forstjóri Coloplast, Kristian Villumsen, lætur af störfum hjá félaginu í dag, samkvæmt kauphallartilkynningu danska lækningavörufyrirtækisins.
Kristian var við stjórnvölin þegar Coloplast keypti Kerecis fyrir tæplega 180 milljarða króna árið 2023. Félagið gerir ráð fyrir að ráða nýjan forstjóra á næstu tólf mánuðum.
Stjórn Coloplast segist hafa ákveðið að hefja leit að nýjum forstjóra til að leiða félagið í gegnum næsta fasa af langtíma sjálfbærum vexti og verðmætasköpun.
„Þar af leiðandi mun forstjórinn, Kristian Villumsen, láta af störfum frá og með deginum í dag,“ segir í tilkynningu Coloplast. Þess má geta að félagið birtir hálfsársuppgjör á morgun.
Kristian hefur starfað í stjórnendateymi Coloplast undanfarin 15 ár og þar af sem forstjóri frá árslokum 2018. Í tilkynningu Coloplast er bent á að hann hafi leitt félagið í gegnum nokkrar stórar yfirtökur.
Kristian var í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu haustið 2023 þar sem hann ræddi um kaupin á Kerecis og starfsemi danska fyrirtækisins.

Lars Rasmussen, sem stýrði Coloplast á árunum 2008-2018, tekur tímabundið við stöðu forstjóra á meðan leitað er að eftirmanni Kristian. Lars lætur af stjórnarformennsku en hann mun þó áfram sitja í stjórn félagsins.