„Ég flaug til Parísar í síðustu viku frá flugvelli utan alfaraleiðar í New York með flugfélagi sem þú hefur líklega ekki heyrt um með Spirit-líkum gjöldum [ódýrum fargjöldum með vísan til flugfélagsins Spirit, innsk. blm.], engum skjám í sætisbökum og millilendingu að morgni á Íslandi. Og ég myndi gera það aftur til að spara peninga.“
Á þessum orðum hefst umfjöllun Wall Street Journal um hvernig Bandaríkjamenn geti ferðast til Evrópu án þess að greiða fúlgur fjár fyrir, en blaðamaður vísar til flugfélagsins Play. Greinin er hluti af „Carry On“ ferðaumfjöllun miðilsins.
Mikill verðmunur réttlæti minni þægindi
Þar kemur einnig fram að algengt verð á fargjaldi yfir Atlantshafið sé hærra en 1.000 bandaríkjadalir. Þá segir að þrátt fyrir að lággjaldaflugfélög rukki sérstaklega fyrir viðbótarþjónustu eins og farangur og sætisval sé verðmunurinn samt slíkur að það borgi sig oft að kynna sér þjónustu þeirra.
Í grein WSJ er jafnframt fjallað um flugfélögin French Bee og Norse Atlantic og þjónusta þeirra borin saman við önnur flugfélög, þar með talið Play. Greinarhöfundur tekur fram að þrátt fyrir að önnur lággjaldaflugfélög bjóði bein flug yfir Atlantshafið sé þess virði að kynna sér þjónustu Play, enda séu fargjöldin meðal þeirra lægstu sem bjóðast á þessum markaði.
Samkvæmt nýjustu farþegaupplýsingum frá Play voru 30% farþega tengifarþegar. Hlutfallið var 29% hjá Icelandair yfir sama tímabil.
Umfjöllun Wall Street Journal má lesa í heild hér.