Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir í aðsendri grein undir fyrirsögninni „Íslenska séreignin leggur þýska stálið“ í Viðskiptablaði vikunnar að það borgi sig í langflestum tilfellum að vera með viðbótarlífeyrissparnað sinn hjá íslenskum vörsluaðilum fremur en erlendum.
Í greininni er borin saman ávöxtun undanfarinn áratug og kostnaðarhlutfall hjá Almenna annars vegar og þýskum líftryggingafélögum hins vegar. Ávöxtun Almenna hefur verið langt um betri á tímabilinu og kostnaðarhlutfallið er margfalt lægra.
Gunnar nafngreinir ekki þýsku líftryggingarfélögin en telja má líklegt að hann eigi hér við fyrirtæki á borð við Allianz og VPV sem bjóða upp á viðbótarlífeyrissparnað í formi lífeyristryggingar. Íslandsbanki á söluumboð Allianz hér á landi og VPV er með starfsemi á Íslandi í gegnum samstarfssamning við Tryggingar og ráðgjöf ehf.
Allt að 44% meiri eignasöfnun á 10 árum
Samanburðurinn sem Gunnar dregur upp sýnir talsverðan mun á ávöxtun blandaðra verðbréfasafna Almenna og erlends líftryggingafélags.
Á árunum 2014 til 2023 skiluðu umræddar ávöxtunarleiðir Almenna árlegri raunávöxtun upp á 2,6-4,7%. Á sama tíma var árleg raunávöxtun þýska félagsins neikvæð um -0,7%.
„Ef þessar tölur eru reiknaðar fyrir viðbótarlífeyrissparnað og gert ráð fyrir 50.000 kr. sparnaði á mánuði sést að sá sem valdi Ævisafn II [ávöxtunarleið Almenna] átti 9,1 milljón í lok sparnaðartímans en sá sem greiddi til þýska líftryggingafélagsins átti 6,5 milljónir ef reiknað er með að 7,5% af iðgjaldi greiðast í samnings-, rekstrar og umsýslukostnað“
Stórt hlutfall renni í samningsgerðar- og rekstrarkostnað
Gunnar segir að það geti munað miklu á kostnaði erlendra líftryggingafélaga og innlendra vörsluaðila. Það hafi bein áhrif á uppsöfnun sparnaðar enda dregst kostnaður frá ávöxtun.
Lífeyristrygging þýsku líftryggingarfélaganna er oft seld með milligöngu sölumanna. Gunnar segir að það séu dæmi um að fólk greiði allt að 20% af iðgjaldi fyrstu fimm árin í samningsgerðar- og rekstrarkostnað og síðan um 5% í umsýslugjöld af greiddum iðgjöldum allan samningstímann.
„Ef samningur er til 40 ára renna þannig að jafnaði um 7,5% af iðgjaldi í kostnað. Til samanburðar rennur enginn kostnaður til sölumanna hjá innlendum vörsluaðilum. Það hefur eðlilega mikil áhrif hvort einstaklingur leggur fyrir 92,5 (eftir 7,5% kostnað) eða 100 (án kostnaðar) tólf sinnum á ári yfir sparnaðartímann.“
Gunnar fer í greininni skilmerkilega yfir munninn á séreign hjá lífeyrissjóðum og lífeyristryggingum en nokkur eðlismunur er á þessu tvennu. Í tilviki lífeyristrygginga segir hann m.a. að flóknar reglur gildi um útreikning hagnaðarhlutdeildar viðskiptavina sem erfitt geti verið fyrir fólk að skilja. Þá segir Gunnar að vegna víðtækrar tryggingaverndar í lífeyrissjóðum henti hefðbundinn séreignarsparnaður betur en lífeyristrygging fyrir fólk í flestum tilvikum.
Þá geti verið dýrt fyrir aðila sem gert hafa samninga við líftryggingarfélög að skipta um vörsluaðila.
Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast greinina heild sinni hér. Greinin birtist fyrst í Viðskiptabaðinu sem kom út á miðvikudaginn, 15. janúar 2025.