A.P. Møller-Mærsk, eitt stærsta gáma­flutninga­fyrir­tæki heims, hefur hækkað af­komu­spána fyrir árið í annað sinn á skömmum tíma.

Mæersk segir að eftir­spurn í gáma­flutningum sé meiri en fyrir­tækið gerði ráð fyrir.

Danska fyrir­tækið greindi frá því í gær að það búist við því að flutnings­verð á heims­vísu muni halda á­fram að hækka og bæta af­komuna.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal segir Mærsk eftir­spurn vera í há­marki um þessar mundir.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um hafa skipa­fé­lög verið í stökustu vand­ræðum með síðustu misseri en lágt flutnings­verð hefur lekið afkomu félaganna grátt ásamt átökum fyrir botni Mið­jarðar­hafs.

Í haust greindi Mærsk frá því að til stæði að segja upp tíu þúsund starfs­mönnum á árinu en fé­lagið hafði þá sagt upp 6.500 starfs­mönnum á fyrstu þremur árs­fjórðungum 2023.

Upphafleg afkomuspá Mærsk gerði ráð fyrir um 4-6 milljarða dala hagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði en nú gerir skipafélagið ráð fyrir um 9 milljarða hagnaði.

Mærsk gerir einnig ráð fyrir að lausafjárstreymi verði um 1 milljarður dala en upphaflega var gert ráð fyrir því að lausafjárstreymi yrði neikvætt um 2 milljarða.

Á sama tíma hefur rekstur Eim­skips verið erfiður en hagnaður Eim­skips dróst saman um 36% á milli ára en fé­lagið skilaði 54,5 milljóna evra hagnaði í fyrra sem sam­svarar rúm­lega 8,1 milljarði króna á gengi dagsins

Hluta­bréfa­verð Eim­skips hækkaði þó um 4% í Kaup­höllinni í gær eftir tölu­verða lækkun á árinu. Ef marka má af­komu­spá Mærsk eru líkur á að betri tíma sé að vænta í gáma­flutningum.