Danski skiparisinn Maersk hefur ákveðið að draga sig úr tilboðsferli um kaup á þýska félaginu DB Schenker, sem sérhæfir sig í vörustjórnun (e. logistics).
Annað danskt stórfyrirtæki er talið líklegast til að taka yfir DB Schenker en það yrði stærsta yfirtaka í sögu dansks viðskiptalífs, að því er segir í frétt viðskiptamiðilsins Børsen.
DB Schenker er dótturfélag þýska járnbrautarfyrirtækisins Deutsche Bahn. Þýska ríkisfyrirtækið hóf söluferli á vörustjórnunarfyrirtækinu í lok síðasta árs.
Í maí síðastliðnum var greint frá því að fjórir mögulegir kaupendur hefðu verið valdir í lokaumferð söluferlisins; Maersk, DSV, Bahri og að lokum sameiginlegt tilboð CVC, ADIA og GIC.
Að minnsta kosti einn þessara aðila bauð yfir 15 milljarða evra í DB Schenker, að því er segir í umfjöllun Reuters.
Hlutabréf Maersk hækka um 6%
Vincent Clerc, forstjóri Maersk, sagði í yfirlýsingu að DB Schenker væri áhugavert fyrirtæki. Ítarleg greining hafi þó gefið til kynna að erfitt yrði að samþætta starfsemina við rekstur Maersk.
„Við komumst að þeirri niðurstöðu að yfirtaka á DB Schenker væri ekki rétta skrefið fyrir okkar starfsemi á þessum tímapunkti,“ sagði Clerc.
Fjárfestar hafa tekið vel í tilkynningu Maersk en hlutabréf danska félagins hafa hækkað um tæplega 6% í viðskiptum dagsins.
Telja annað danskt félag sigurstranglegt
Fjárfestingarbankinn Bernstein telur að Maersk hafi tekið rétta ákvörðun að segja sig úr tilboðsferlinu í ljósi þess að skiparisinn hefði sennilega þurft að ofborga til að hafa betur gegn öðrum þátttakendum.
Í bréfi til fjárfesta segist greinandi Bernstein telja 85% líkur á að danska félagið DSV, sem starfar að flutningsmiðlun um allan heim, muni landa kaupum á DB Schenker. Hann telur samruna DSV og DB Schenker betur til þess fallinn að ná fram samlegðartækifærum heldur en í tilviki Maersk og því sé DSV í betri stöðu til að bjóða í þýska félagið.
Ef af kaupum DSV verður, þá yrði um að ræða stærstu yfirtöku í sögu dansks viðskiptalífs, að því er segir í frétt Børsen. Eina mögulega hindrunin væri ef sádi-arabíska flutningsfélagið Bahri myndi leggja fram yfirgengilegt kauptilboð.
Hlutabréfaverð DSV hefur hækkað um 7% í dag.