Fyrrverandi körfuboltastjarnan Magic Johnson er orðinn milljarðamæringur samkvæmt tímaritinu Forbes og verður hann fjórða íþróttastjarnan í sögunni til að ganga til liðs við þann klúbb.
Forbes hefur nýlega metið auð Johnson á um 1,2 milljarða dala en hinir þrír íþróttakappar sem hafa einnig ratað inn á þennan lista eru Michael Jordan, Lebron James og Tiger Woods.
Johnson, sem er 64 ára gamall, hefur hagnast verulega á fjárfestingum sínum í fjölmörgum fyrirtækjum og íþróttaliðum. Megnið af ágóðanum hefur hins vegar komið frá eignarhlut sínum í líftryggingafélaginu EquiTrust.
Tímaritið segir jafnframt að Johnson hafi grætt mestan hluta af sínum auð eftir að hafa lagt körfuboltaskóna á hilluna árið 1996. Á þeim tíma sem Johnson spilaði fyrir NBA hafi hann engu að síður þénað 40 milljónir dala.
Johnson á hlut í þremur íþróttaliðum í Los Angeles, þar á meðal hafnaboltaliðinu Los Angeles Dodgers. Hann hefur einnig fjárfest í Starbucks, Burger King og 24 Hour Fitness.
Að sögn Forbes hefði Johnson getað orðið milljarðamæringur fyrr á lífstíð sinni ef hann hefði ekki hafnað hlutabréfatilboði frá Nike þegar hann byrjaði fyrst að spila í NBA á áttunda áratugnum. Þess í stað gerði hann samning við Converse sem bauð honum 100.000 dali á ári.