Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri hefur dregið framboð sitt til stjórnar Sýnar til baka, þrátt fyrir að hafa hlotið stuðning tilnefningarnefndar félagsins . Nefndin leggur nú til að Jóhann Hjartarson, yfirlögfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar, verði kjörinn í stjórn Sýnar á aðalfundi félagsins sem haldinn verður föstudaginn 18. mars.

Tvö sæti í stjórn fjarskiptafélagsins eru að losna en Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, og Sigríður Vala Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni hjá Sjóvá, gefa ekki kost á sér á ný.

Alls eru sex einstaklingar að bjóða sig fram til stjórnar félagsins en auk framboðs þriggja sitjandi stjórnarmanna bjóða sig fram framangreindur Jóhann Hjartarson, Sesselía Birgisdóttir, forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum, og Sólveig R. Gunnarsdóttir, ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Sólveig ehf. Tilnefningarnefndin leggur til að Jóhann og Sesselía komi ný inn í stjórnina.

Framboð til aðalstjórnar Sýnar:

  • Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður
  • Páll Gíslason, situr í stjórn
  • Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, situr í stjórn
  • Sesselía Birgisdóttir,
  • Jóhann Hjartarson
  • Sólveig R. Gunnarsdóttir