Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá fjarskiptafélaginu. Greint er frá þessu í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fram kemur að Magnús muni starfa hjá félaginu til mánaðamóta og í framhaldinu verður einnig félaginu innan handar í verkefnum sem snúa að sjónvarpsþjónustu eins og þörf krefur.

Magnús hefur setið í framkvæmdastjórn félagsins frá árinu 2014 auk þess að hafa áður starfað hjá fyrrum dótturfélagi Símans Skjánum á árunum 2004-2007.

„Síðasti áratugur hjá Símanum hefur verið ótrúlega krefjandi og skemmtilegur. Það er óvíða sem samkeppni er eins virk og í fjölmiðlum og fjarskiptum og ég skil afar sáttur við frábæra stöðu mála hjá Símanum,“ segir Magnús.

„Sjónvarpsþjónusta Símans er sú langbesta sem landsmönnum stendur til boða, áskrifendur að streymiveitu Símans eru orðnir 50 þúsund og besta íþróttadeild í heimi, Premier League, er aðgengileg á nær 60 þúsund íslenskum heimilum. Miðlun hefur vaxið frá því að vera lítil hliðarbúgrein yfir í að verða í árslok stærsta tekjustoð Símans. Ég kveð Símann því með söknuði og þakklæti en einnig tilhlökkun yfir því sem fram undan er.“

Fækkar í framkvæmdastjórn

Undir sviðið sviðinu miðlar heyra tæknimál sjónvarpsrekstrar, dagskrárdeild og auglýsingaráðgjöf Símans.

Fram kemur að tæknimál sjónvarpsrekstrar munu nú færast á svið tækniþróunar sem Logi Karlsson stýrir, en dagskrárdeild og auglýsingaráðgjöf munu færast á skrifstofu forstjóra. Við þessa breytingu fækkar framkvæmdastjórum hjá Símanum úr fimm í fjóra.

„Magnús hefur verið í forystuhlutverki Símans á sviði íslenskrar miðlunar á undanförnum árum og leitt algera umbyltingu í rekstri sjónvarps okkar. Auk lykilhlutverks hans við umbreytingu og eftirtektarverðum vexti miðla Símans á undanförnum árum hefur Magnús einnig leitt vöruþróun og nýsköpun félagsins á fjölmörgum öðrum sviðum,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Það verður mikil eftirsjá að Magnúsi en sem betur fer höfum við tryggt okkur ráðgjöf hans í nokkrum veigamiklum þróunarverkefnum næstu misseri. Fyrir hönd allra Símastarfsmanna óska ég honum alls hins besta í hverju sem hann tekur sér fyrir hendur.”