Pax-Dei, fjölspilunarleikur íslenska-finnska tölvuleikjafyrirtækisins Mainframe Industries, var í gær valinn tölvuleikur ársins 2024 í Finnlandi af samtökum finnska leikjaiðnaðarins.
Mainframe var stofnað af þrettán Íslendingum og Finnum árið 2019. Íslensku stofnendurnir höfðu starfað hjá CCP við þróun EVE Online. Sextán manns starfa fyrir félagið hér á landi í dag.
Fjölnotendaleikurinn (MMO) Pax Dei gerist á myrkum tímum ævintýraheims þar sem goðsagnir, draugar og galdrar eru raunverulegir. Spilarar þurfi að taka höndum saman til að byggja upp þorp og fylkingar. Þeir geta einnig barist við skrímsli og óvætti, auk þess að berjast við hvorn annan.
Mainframe gaf út Pax Dei í „early access“ útgáfu síðasta sumar. Félagið stefnir að formlegri útgáfu leiksins síðar í ár.
Valið kom á óvart
Í umfjöllun finnska fjölmiðilsins Ilta-Sanomat segir að valið á Pax-Dei hafi komið á óvart í ljósi þess að margir þekktir leikir hafi nýlega verið gefnir út af finnskum leikjafyrirtækjum. Stærri fyrirtæki á borð við Supercell, Housemarque og Remedy beri yfirleitt sigur úr býtum á útgáfuárum stórra leikja.
Farsímaleikur Supercell sem kom út í fyrra, Squad Busters, lenti í þriðja sæti á lista samtakanna yfir leiki ársins. Supercell, sem er í meirihlutaeigu kínverska stórfyrirtækisins Tencent, var með tekjur upp á 2,8 miljarða evra árið 2024.
Ilkka Paananen, forstjóri og einn stofnenda Supercell Pax Dei, hrósaði Mainframe á Linkedin í kjölfar verðlaunaafhendingarinnar. Hann sagði að Pax-Dei hljóti að vera einn af fallegustu fjölspilunarleikjum allra tíma og sagði að Mainframe hafi tekist að þróa leikinn með aðeins brot af því fjármagni sem risar í tölvuleikjaiðnaðinum geti varið í þróun slíkra líkja.
Mainframe var afhent verðlaunin þegar um 2:44:00 er liðinn af myndbandinu.