Billy Evans, maki Elizabeth Holmes sem nú afplánar fangelsisdóm fyrir fjársvik í tengslum við blóðgreiningarfyrirtækið Theranos, vinnur nú að stofnun eigin sprotafyrirtækis á sviði heilbrigðisgreininga.
Fyrirtækið heitir Haemanthus, nefnt eftir blómategund sem einnig er kölluð blóðlilja.
Samkvæmt kynningargögnum sem The New York Times hefur undir höndum stefnir fyrirtækið að því að bjóða upp á „byltingarkennda nálgun á heilbrigðisgreiningu“ og að „hámarka heilsu mannfólks“. Fyrstu skrefin beinast þó að rannsóknum á dýrum.
Nýtt nafn en kunnugleg nálgun
Haemanthus vinnur að þróun lítillar, ferhyrndrar greiningarvélar með hurð, skjá og stillanlegum leysum sem eiga að greina blóð, munnvatn og þvag.
Tækið minnir óneitanlega á Edison-tækið sem Theranos kynnti á sínum tíma – og reyndist síðar ónothæft.
Fyrirtækið hyggst byrja á greiningum fyrir gæludýr áður en það snýr sér að mönnum.
Samkvæmt kynningarefninu mun tæknin greina líffræðileg merki eins og glúkósa og hormóna og beita líkönum til að greina meðal annars krabbamein og sýkingar, allt á örskotsstundu.
Evans heldur því fram að engin opinber eftirlitsstofnun eigi hlut að máli.
Í kynningargögnum segir að „engin regluvarsla eigi við fyrirtækið“ og að „bandaríska landbúnaðarráðuneytið hafi staðfest það skriflega.“
Talsmaður USDA sagði hins vegar að stofnunin hefði ekki getað staðfest slík samskipti, og benti á að USDA hefði í reynd eftirlit með greiningartækjum fyrir dýr.
Stofnað fyrir tveimur árum
Samkvæmt opinberum gögnum hefur fyrirtækið hlotið eitt einkaleyfi, og starfsemi þess fer fram í Austin, Texas, þar sem Evans býr með börnum sínum og Elizabeth Holmes, sem afplánar 11 ára dóm í alríkisfangelsi í Bryan, Texas.
Hvorki Holmes né tengsl hennar við fyrirtækið eru nefnd í kynningargögnum, og Evans lýsir starfsemi sinni aðeins sem þátttöku í „leyndu sprotafyrirtæki.“
Fyrirtækið hefur þegar sótt um 3,5 milljónir dollara í upphafsfjármagn frá vinum og ættingjum og sækist nú eftir allt að 15 milljóna dollara viðbótarfjármögnun.
Til lengri tíma hyggst það þróa smátt, bærilegt greiningartæki, ekki stærra en frímerki, fyrir fólk. Samkvæmt kynningu myndi slíkt tæki krefjast um 70 milljóna dollara og þriggja ára þróunar.
Varfærin viðbrögð
Heilbrigðisþjónusta fyrir dýr er orðin stór og ört vaxandi markaður þar sem fjárfestingarsjóðir hafa undanfarið keypt upp sjálfstæðar dýralæknastofur í stórum stíl. Sérfræðingar telja krabbameinsgreiningar hjá gæludýrum einar og sér vera margmilljarða atvinnugrein í Bandaríkjunum.
Evans heldur því fram að Haemanthus hafi fengið ráðgjöf frá um það bil tuttugu sérfræðingum á sviði dýralækninga og greininga, þó að engin nöfn hafi verið gefin upp.
Þrátt fyrir metnaðarfull áform hefur fyrirtækið fengið kaldar kveðjur frá sumum fjárfestum. Fjárfestingarfélag milljarðamæringsins Michael Dell hafnaði þátttöku og James W. Breyer, þekktur frumkvöðlafjárfestir sem studdi meðal annars Facebook, lýsti efasemdum.
„Í greiningartækni liggur munurinn á áhrifamikilli sögu og raunhæfu fyrirtæki í vísindalegri undirstöðu og klínískri notagildi,“ sagði Breyer í tölvupósti.
Arfleifð Theranos loðir enn við
Theranos var eitt umtalaðasta sprotafyrirtæki heims í upphafi síðasta áratugar.
Elizabeth Holmes var hyllt sem tæknifrumkvöðull og prýddi forsíður tímarita, en undir yfirborðinu reyndist fyrirtækið byggt á tómum loforðum.
Tækin sem áttu að bylta blóðgreiningu reyndust ónothæf og greiningarnar í besta falli ónákvæmar, ef þær fóru yfir höfuð fram.
Fjárfestar voru sviknir, sjúklingar fengu ranga sjúkdómsgreiningu og Holmes var að lokum dæmd fyrir fjársvik árið 2022.