Sú spurning að vakna hvernig Ísland blandast inn í 7,3 milljarða dollara yfirtöku Viasat á Inmarsat en það er í gegnum félagið Inmarsat Solutions ehf. Félagið var stofnað árið 2006 og hét upphaflega Skip og búnaður ehf. Til að byrja með sá það um að setja upp og þjónusta breiðbands gervihnattafjarskiptabúnað í skipum. Nú þjónustar það aðallega háhraðafjarskiptatengingu, það er síma og net, til skipa gegnum gervihnött.
Samstarfsaðili félagsins var hið norska Ship Equip en það átti ríflega þriðjungshlut í félaginu á móti stofnendunum Jóhanni H. Bjarnasyni og Grími Helgusyni. Árið 2011 var það félag aftur á móti tekið yfir af Inmarsat – kaupverð var 159,5 milljónir dollara auk yfirtöku á skuldum – og var íslenska félagið þar með að meirihluta í breskri eigu gegnum norska móðurfélagið. Fyrrnefndir Jóhann og Grímur eiga 24,5% hvor í íslenska félaginu en Inmarsat afganginn gegnum dótturfélag sitt í Noregi.
- Sjá meira: Íslenskt félag með í risasamruna
Undanfarin ár hafa tekjur Inmarsat Solutions ehf. verið ríflega 350 milljónir króna ár hvert, stærstur hluti þess kemur erlendis frá eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst, en framlegð félagsins hefur verið rúmlega 300 milljónir króna. Ársverk hjá félaginu í fyrra voru fjögur en laun og launatengd gjöld námu tæpum 84 milljónum. Rekstrarhagnaður eftir afskriftir nam 212 milljónum og endanlegur hagnaður, að teknu tilliti til gengismunar og skatta, var 188 milljónir rúmar.
Eignir félagsins í árslok voru metnar á 264 milljónir en skuldir 75 milljónir. Langstærstur hluti skuldanna, rúmlega 52 milljónir, var í formi skatta. Eigið fé félagsins var 189 milljónir. Í fyrra greiddi félagið 196 milljónir í arð til eigenda sinna og árið 2019 nam arðgreiðslan 166 milljónum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .